Skáldað undir fölsku flaggi

Rannsóknarblaðamaður sagðist í fyrra hafa komist að því að Elena …
Rannsóknarblaðamaður sagðist í fyrra hafa komist að því að Elena Ferrante væri raunverulega þýðandinn Anita Raja. Þetta hefur ekki fengist staðfest og blaðamaðurinn verið gagnrýndur fyrir að brjóta gegn friðhelgi einkalífs Ferrante.

Það er ekkert nýtt að rithöfundar grípi til þess að gefa út undir dulnefni. Ástæðurnar eru margar og margvíslegar en fyrirbærið hefur komist aftur í kastljósið vegna höfundarins sem skrifar undir dulnefninu Elena Ferrante. Í hennar tilviki, ef rithöfundurinn er raunverulega kona, var um að ræða val en það hafa ekki allir búið við þann lúxus.

Fregnir bárust af því í fyrra að manneskjan á bak við Ferrante-nafnið væri Anita Raja, þýðandi í Róm, en hvort það er rétt skal ósagt látið. Hins vegar hefur verið haft eftir Ferrante að „hún“ hafi ákveðið að gefa skáldverk sín út undir dulnefni til að forðast sviðsljósið og ekki síður vegna þeirrar sannfæringar sinnar að fullskapað verk þarfnist ekki höfundar.

En sem fyrr segir hefur margur gripið til þess að gefa út undir dulnefni af illri nauðsyn.

Alberto Moravia, höfundur La romana og einn höfðingja ítalskra bókmennta á 20. öld, var skírður Alberto Pincherle. Foreldrar hans voru gyðingar og sá Pincherle sig tilneyddan  að breyta eftirnafni sínu til að komast undan ritskoðun og ofsóknum af höndum fasískra stjórnvalda í stjórnartíð Mussolini.

Frakkinn Henri Beyle tók upp listamannsnafnið Stendhal af því að …
Frakkinn Henri Beyle tók upp listamannsnafnið Stendhal af því að hann hataði föður sinn. Mynd/Wikipedia.org

Fyrsta höfundarverk Nataliu Ginzburg var skrifað á Alessöndru Tornimparte af sömu ástæðu og sama á við um Giorgio Bassani, sem varð Giacomo Marchi. 

Dulnefni, eðli málsins samkvæmt, hafa valdið ýmsum vandkvæðum. Til dæmis komu dómararnir í dómnefnd hinna virtu frönsku bókmenntaverðlauna Goncourt af fjöllum þegar þeir ákváðu að veita þau Emile Ajar fyrir bókina La vie devant soi árið 1975.

Það sem þeir vissu ekki var að Ajar var dulnefni rithöfundarins Romain Gary, sem hlaut verðlaunin árið 1956 fyrir The Roots of Heaven og mátti því ekki, samkvæmt reglum Goncourt, hljóta þau aftur.

Ögrun og feluleikur

Gary komst hjá vandanum með því að fá frænda sinn til að þykjast vera Ajar. Það komst ekki upp um klækjabrögð þeirra fyrr en við útgáfu The Life and Death of Emile Ajar; ritgerð sem Gary skrifaði skömmu áður en hann svipti sig lífi í íbúð sinn í París árið 1980.

Þetta var þó ekki í eina skiptið sem rithöfundinum, leikstjóranum og flugmanninum tókst að blekkja bókmenntaelítuna. Hann var jafnvígur á ensku og ítölsku og þýddi ofta texta sína sjálfur undir dulnefnum.

Þá gaf hann stundum út verk undir skírnarnafni sínu, Romain Kacew. „Ég er búinn að skemmta mér vel. Bless og takk,“ sagði hann í kveðjubréfi sínu til umheimsins.

Að sögn Mario Baudino, sem gaf nýverið út bókina Lei non sa chi sono io, Þú veist ekki hver ég er, notaðist Gary við dulnefni bæði til að ögra en einnig af því að hann aðhylltist hugmyndafræðina um höfundinn sem persónu í verkinu.

Stephen King, höfundur It og fleiri hryllingssagna, gaf út sjö …
Stephen King, höfundur It og fleiri hryllingssagna, gaf út sjö bækur undir dulnefni, m.a. til að komast að því hvort það væru hæfileikar hans sem réðu vinsældunum eða nafnið Stephen King. Ljósmynd/Warner Bros.

Blaðamaðurinn Baudino fann mörg þemu sem endurtóku sig þegar kom að rithöfundum og dulnefnum þeirra.

John Le Carré varð til að mynda til þegar David Cornwell hóf að skrifa njósnasögur á meðan hann var enn að störfum fyrir bresku leyniþjónustuna MI6. Og hinn alsírski Mohammed Moulessehoul, sem gaf út sín fyrstu verk í herþjónustu, notaðist við nafn eiginkonu sinnar til að forðast ritskoðun.

Velgengnin byggð á hæfileikum eða frægð?

Margir hafa verið afhjúpaðir, líkt og Ferrante.

Bandaríski hryllingshöfundurinn Stephen King er eitt frægra dæma en hann gaf út sjö bækur undir dulnefninu Richard Bachman. King kaus m.a. að nota annað nafn við útgáfuna til að komast hjá kröfum útgefanda síns um að hann gæfi aðeins út eina bók á ári undir eigin nafni.

Hann langaði hins vegar einnig að vita hvort velgengni hans mætti rekja til hæfileika eða þeirrar góðu gæfu sem hann varð aðnjótandi þegar hann komst fyrst á kortið. Segja má að spurningunni hafi verið svarað þegar sala á bókum Backman jókst til muna eftir afhjúpunina.

Nóbelsverðlaunahafinn Doris Lessing gerði áþekka tilraun þegar hún kom handriti til útgefanda síns undir nafninu Jane Somers. Skemmst er frá því að segja að verkinu var hafnað.

„Valið á dulnefninu er aldrei fullkomlega tilviljanakennt,“ segir Baudino. Hinn franski Henri Beyle hafi til að mynda orðið Stendhal á 19. öldinni til að fjarlægja sig frá föður sínum, sem hann hataði. Nokkrum áratugum áður hefði Francois-Marie Arouet tekið upp nafnið Voltaire af svipuðum ástæðum.

JK Rowling kaus að gefa út undir upphafsstöfum sínum af …
JK Rowling kaus að gefa út undir upphafsstöfum sínum af ótta við að drengir myndu síður vilja lesa bækur eftir konu. AFP

Þá er skemmst að minnast þess tíma þegar kvenkyns höfundar sáu sig tilneydda til að skrifa undir karlmannsnafni; Mary Ann Evans varð George Eliot, Aurore Dupin varð George Sand og Bronte-systur gáfu sín fyrstu verk út undir nöfnunum Currer, Ellis og Acton Bell.

Upp á síðkastið hefur tilhneigingin hins vegar verið sú að taka upp kynhlutlaus dulnefni.

Hryllingshöfundurinn Tom Knox, sem raunverulega heitir Sean Thomas, valdi sér t.d. dulnefnið SK Tremayne þegar hann snéri sér að fjölskyldudrama, á meðan JK Rowling valdi að gefa út undir upphafsstöfum sínum til að fæla ekki drengi frá því að lesa Harry Potter.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert