Farþegaþota varð vélarvana úti fyrir Grænlandi

Miklar skemmdir urðu á hreyfli vélarinnar.
Miklar skemmdir urðu á hreyfli vélarinnar. Skjáskot/Twitter

Flugvél Air France-flugfélagsins þurfti að nauðlenda í Kanada í gær eftir að vélin varð vélarvana á leið sinni frá París til Los Angeles.

Einn af fjórum hreyflum vélarinnar, sem er af gerðinni A380, gaf sig þegar vélin var stödd vestur af Grænlandi.

Enginn slasaðist í nauðlendingunni, en farþegunum 496 var haldið um borð í nokkrar klukkustundir eftir lendingu enda flugvöllurinn sem lent var á ekki ætlaður fyrir þotur af þessari stærð.

David Rehmar, fyrrverandi flugvirki, sem var í hópi farþega, sagði í samtali við BBC að hann teldi um bilun í viftu vélarinnar að ræða. Skyndileg hreyfing hefði orðið á vélinni, síðan hefði heyrst hátt hljóð sem olli skelfingu hjá farþegum.

„Ég heyrði háan hvell og svo kom titringur sem fékk mig til að halda að vélin hefði bilað,“ sagði Rehmar og bætti við að hann hefði óttast um stund að vélin myndi hrapa.

Þær áhyggjur hurfu hins vegar fljótt þegar vélin náði að rétta sig af á 30 sekúndum og var flugmaður fljótur að slökkva á bilaða hreyflinum. Vélinni var svo flogið áfram í klukkustund á þremur hreyflum þar til komið var að Goose Bay-flugvellinum í Labrador í austurhluta Kanada.

Myndir sem farþegar tóku af hreyflinum sýna miklar skemmdir á honum.

Í yfirlýsingu frá Air France var staðfest að alvarlegar skemmdir hefðu orðið á einum hreyflanna og að starfsfólk vélarinnar hefði brugðist hárrétt við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert