Segir Trump vera að leita afsakana

Donald Trump Bandaríkjaforseti. Carmen Yulin Cruz, borgarstjóri San Juan höfuðborgar, …
Donald Trump Bandaríkjaforseti. Carmen Yulin Cruz, borgarstjóri San Juan höfuðborgar, Púertó Ríkó, segir Trump vera að leita afsakana á því af hverju hjálparstarfið gangi ekki betur. AFP

Carmen Yulin Cruz, borgarstjóri San Juan, höfuðborgar Púertó Ríkó, segir Donald Trump Bandaríkjaforseta vera að leita afsakana á því af hverju hjálparstarfið gangi ekki betur. Trump hafði áður sakað Cruz um lélega stjórnunarhæfni eftir að hún kvartaði yfir neyðaraðstoð bærist ekki nógu hratt til eyjarinnar.  

Cruz biðlað til bandarískra stjórnvalda í fjölmiðlum í gær og uppskar mikla samúð er hún sagði mannslíf í húfi drægist lengur að senda hjálpargögn til Púertó Ríkó sem varð illa fyrir barðinu á fellibylnum Maríu, sem fór þar yfir í síðustu viku.

Stór hluti eyjaskeggja er án rafmagns og um helmingur þeirra 3,4 milljóna sem þar búa hafa ekki aðgang að hreinu neysluvatni.

Trump brást við hjálparbeiðni Cruz með því að gefa í skyn á samfélagsmiðlinum Twitter að demókratar hefðu hvatt hana til að vera vonda við forsetann.

Cruz hafnar allri slíkri gagnrýni og sagði við fréttastofu CNN að hún hefði brosað þegar lélegt netsamband á Púertó Ríkó hefði loks gert henni kleift að sjá Twitter-skilaboð forsetans. „Ég brosti,“ sagði hún. „Ég hef engan tíma fyrir pólitíska leiki“.

Þá kvaðst hún ekki tilheyra Demókrataflokkinum, hún væri félagi í miðjuflokkinum Popular Democratic Party og að stjórnmál skiptu ekki máli í þessu sambandi. „Ég held að hann sé bara að leita afsökunar á því að hlutirnir eru ekki að ganga of vel.“

Það eina sem hún vildi væri að alríkisstjórnin gerði allt sem á hennar valdi væri til að auðvelda aðstæður eyjaskeggja sem enn skorti matvæli, hreint vatn og rafmagn.

Eftir hjálparbeiðnina í gær hafi hlutirnir loks komist á hreyfingu. „Í gær eftir fréttamannafundinn, þá fóru hlutir loks að berast inn frá almannavarnastofnunni [FEMA].“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert