Árásarmaðurinn er afi á sjötugsaldri

Stephen Paddock, afi á sjötugsaldri, skaut yfir fimmtíu manns til bana og særði yfir 200 í Las Vegas. Ekkert hefur komið fram sem tengir hann við hryðjuverkasamtök en átta rifflar fundust í herbergi hans á hótelinu þar sem hann framdi fjöldamorðin - hryðjuverkið. Alls leituðu yfir 400 manns á sjúkrahús í kjölfar árásarinnar.

Fjölmiðlar víða um heim reyna að draga upp mynd af Stephen Paddock sem skráði sig á spjöld sögunnar í nótt með ódæðisverki sínu. Skotárás sem er sú mannskæðasta í Bandaríkjunum hingað til.

Stephen Paddock ásamt Marilou Danley,
Stephen Paddock ásamt Marilou Danley, Skjáskot af Twitter

Paddock var 64 ára gamall og frá Nevada. Hann var skotinn til bana af sérsveitarmönnum í herbergi sínu á 32. hæð Mandalay Bay hótelsins og spilavítisins. 

Samkvæmt Telegraph bjó Paddock í þorpi fyrir lífeyrisþega í Mesquite, Nevada, frá því í júní í fyrra. Hann er fæddur 9. apríl 1953. Hann bjó áður í Reno, Nevada (2011-2016) og eins um tíma í Melbourne, Flórída og víðar í Nevada og Kaliforníu í gegnum tíðina. 

Mesquite er í um það bil 130 km fjarlægð frá Las Vegas og er við ríkjamörk Arizona. Alls búa 17.400 í Maequite.

Lögreglustjórinn í Las Vegas segir að allt bendi til þess að Paddock hafi verið einn að verki en sambýliskona hans, Marilou Danley, var með honum á hótelinu. Hún er í haldi lögreglu en ekki talin tengjast árásinni.

Ekki er vitað hvað Paddock gekk til þegar hann hóf skothríð á gesti á útitónleikum úr herbergi sínu á 32. hæð hótelsins.

NBC segir að Paddock hafi verið á sakaskrá en ekki hefur tekist að sannreyna það. Lögreglan í Mesquite segir í samtali við CBS News að hún hafi aldrei haft afskipti af honum. Hann búi í hverfi eldri borgara og sé ekki fyrrverandi hermaður.

Danley er 62 ára gömul og er frá Ástralíu. Hún og Paddock hafa verið skráð með sama heimilisfang í opinberum skrám frá því í janúar. Á LinkedIn lýsir hún sér sem sérfræðing á sviði veðmála og spilavíta. Á Facebook segist hún vera stolt móðir og amma sem lífinu til fulls.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert