Birgitta fundar með forseta Katalóníu

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, er á leið á fund með Car­les Puig­demont, for­seta Katalón­íu, og ríkisstjórn hans. Birgitta hefur verið í Katalóníu frá því fyrir helgi ásamt 35 öðrum evrópskum þingmönnum í þeim tilgangi að fylgjast með framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu Katalóna um sjálfstæði sem fram fór í gær.

90% af þeim 2,26 millj­ón­um Katalóna sem kusu um sjálf­stæði sjálf­stjórn­ar­héraðsins sögðu já. Miklar óeirðir brutust út á meðan kjörfundi stóð og alls leituðu 844 sér lækn­isaðstoðar en af þeim voru rúm­lega 90 með áverka.

Birgitta segir það vera magnaða upplifun að fylgjast með atburðum í héraðinu síðustu daga. Hún lýsti aðstæðum og við hverju megi búast næstu daga í beinni útsendingu á Facebook nú fyrir stundu.

„Við erum núna að fara að hitta ríkisstjórnina, það eru miklar áhyggjur af því að ef að katalónska ríkisstjórnin lýsi yfir sjálfstæði að þá verði allir handteknir. Ég hef beðið um að fá allar upplýsingar um aðför að kjörnum fulltrúum, eða tilraunum til að þagga niður í þeim eða að hefta þeirra störf, svo að ég geti farið með þau í mannréttindanefnd alþjóðaþingmannasambandsins, en ég er að fara á fund þar síðar í þessum mánuði, það verður mitt lokaverk sem þingmaður.“

Birgitta segist ekki vera vör um þá miklu spennu sem fjölmiðlar hafa verið að lýsa að ríki á svæðinu. Hún finni heldur fyrir sorg og sjokki meðal almennings. „Fólk var mjög staðfast í að láta ekki troða á kröfu sinni um að láta vilja sinn í ljós.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert