Neita að hafa myrt Kim

Tvær konur, sem eru ákærðar fyrir morðið á hálfbróður leiðtoga Norður-Kóreu, Kim Jong-nam, neituðu sök við réttarhöldin í Malasíu í dag.

Kim var myrtur með afar eitruðu taugagasi á flugvellinum í Kuala Lumpur í febrúar þar sem hann beið eftir flugi. 

Þær Doan Thi Huong, sem er 29 ára gömul og frá Víetnam og Siti Aisyah, sem er 25 ára frá Indónesíu, eru sakaðar um að hafa nuddað eitrinu í andlit hans. Konurnar segja að þær hafi haldið að þetta væri sjónvarpshrekkur. Talið er að leyniþjónusta Norður-Kóreu hafi fengið þær til verksins.

Yfirvöld í Pyongyang neita því að hafa komið nálægt morðinu en malasísk yfirvöld segja aftur á móti að fjórir menn frá Norður-Kóreu hafi staðið á bak við morðið. Fjórmenningarnir, eru að sögn malasískra yfirvalda, njósnarar en þeir fóru frá Malasíu með flugi sama dag og morðið var framið.

Ungu konurnar voru leiddar fyrir dóm í dag, báðar með handjárn og í skotheldum vestum. Fjölmiðlar fylgjast grannt með réttarhöldunum sem fara fram í Shah Alam, skammt fyrir utan Kuala Lumpur. 

Eftir að ákærur voru lesnar yfir þeim á indónesísku og víetnömsku, lýstu þær sakleysi sínu. Ef þær verða fundnar sekar eiga þær yfir höfði sér dauðarefsingu. 

Doan Thi Huong og Siti Ashyah.
Doan Thi Huong og Siti Ashyah. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert