Allsherjarverkfall í Katalóníu

Yfir 40 stéttarfélög og félagasamtök standa fyrir allsherjarverkfalli í Katalóníu …
Yfir 40 stéttarfélög og félagasamtök standa fyrir allsherjarverkfalli í Katalóníu í dag til að mótmæla lögregluofbeldi sem kjósendur urðu fyrir þegar íbúar héraðsins kusu um sjálfstæði á sunnudag. AFP

Yfir 40 stéttarfélög og félagasamtök í Katalóníu á Spáni standa fyrir allsherjarverkfalli í dag. Verkfallið er liður í mótmælum gegn lögreglu sem réðst til atlögu gegn ólöglegum kosningum um sjálfstæði héraðsins á sunnudag.

Mótmælendur hafa safnast saman á götum úti og hindra að umferð komist í gegn um helstu gatnamót í Barcelona. Almenningssamgöngur liggja að mestum hluta niðri vegna verkfallsins.

Í frétt BBC kemur fram að minnsta kosti 24 vegatálmum hefur verið komið upp í Katalóníu sem valda miklum umferðartöfum. Þá er engin umferð um höfnina í Barcelona.

Flugvöllurinn í Barcelona, El Prat, er enn starfhæfur og leigubílstjórar mættu til starfa, en komast lítið áfram í umferðinni.

Mörg smærri fyrirtæki eru lokuð í dag og grunnskólar og háskólar eru ýmist lokaðir eða veita lágmarksþjónustu. Heilbrigðisþjónusta er sömuleiðis af skornum skammti.    

Kallað var eftir verkfallinu á sunnudag. Í yf­ir­lýs­ingu frá UGT og CCOO, stærstu stétt­ar­fé­lögum Spán­ar, frjálsu fé­laga­sam­tök­un­um ANC og rúm­lega 40 öðrum sam­tök­um eru „gróf brot á rétt­ind­um og frelsi“ nefnd sem megin ástæður verkfallsins.

Um 900 manns slösuðust í átök­un­um sem brutust út milli kjósenda og lögreglu á kjördag og hafa yf­ir­völd á Spáni verið harðlega gagn­rýnd fyr­ir fram­göngu spænsku óeirðarlög­regl­unn­ar. Lögreglan skaut meðal annars gúmmíkúlum í átt að almenningi og þá sáust lögreglumenn draga konur á hárinu inn á lögreglustöð. 33 lögreglumenn slösuðust í átökunum.

Mörg smærri fyrirtæki eru lokuð í Katalóníu í dag vegna …
Mörg smærri fyrirtæki eru lokuð í Katalóníu í dag vegna allsherjarverkfalls. AFP
„Lokað í dag, allan dag.“
„Lokað í dag, allan dag.“ AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert