Með morðmyndbönd í tölvunni

Peter Madsen og Kim Wall.
Peter Madsen og Kim Wall. Samsett mynd

Danskur dómstóll úrskurðaði Peter Madsen, sem er sakaður um að hafa myrt sænska blaðamanninn Kim Wall um borð í heimatilbúnum kafbáti sínum í ágúst, í áframhaldandi gæsluvarðhald í dag en fyrri úrskurður rann út í dag.

Fram kemur á fréttavef sænska ríkisútvarpsins SVT. Madsen var ekki viðstaddur úrskurð dómstólsins en fylgist með í gegnum fjarfundarbúnað. Var honum boðið að taka til máls og ítrekaði hann fyrri yfirlýsingu um að hann væri saklaus.

Saksóknarinn í málinu, Jakob Buch-Jepsen, fór fram á áframhaldandi gæsluvarðhald og sagði rannsókn málsins enn vera í gangi. Niðurstöður krufningar á líki Wall lægju fyrir en ekki lægi þó endanlega fyrir hvað hefði dregið hana til dauða.

Engu að síður sagði Buch-Jepsen að grunur um að Madsen hefði valdið dauða Walls hefði styrkst. Áverkar á líki hennar bentu til þess að hún hefði orðið fyrir ofbeldi. Til að mynda nokkur stungusár. Notað hefði verið tennt verkfæri.

Rannsóknin hefði einnig sýnt að erfðaefni Walls hefði fundist undir nöglum Madsens. Myndbönd hefðu fundist á tölvu hans með ofbeldisefni. Þar á meðal morð á konum. Madsen sagðist ekki eiga tölvuna og að fleiri hefðu notað hana. Myndböndin væru því ekki endilega hans.

Verjandi Madsens, Betina Hald Engmark, sagði rannsókn lögreglunnar sýna að hugsanlega hefði slys átt sér stað og sakaði lögregluna um að hlusta ekki á útskýringar skjólstæðings síns. Fór hún fram á að Madsen yrði leystur úr haldi.

Dómstóllinn féllst á kröfu saksóknara og framlengdi gæsluvarðhaldið til 31. október.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert