Neitar að tala um árásina sem hryðjuverk

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, neitar að tala um skotárásina í …
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, neitar að tala um skotárásina í Las Vegas í gær sem hryðjuverk. AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur lýst árásarmanninum, sem skaut 59 manns til bana og særði 527 í Las Vegas á sunnudag, sem sjúkum og geðveikum manni. Trump neitaði hins vegar að tala um skotárásina sem hryðjuverk, þegar hann var inntur eftir því.

Trump sagði í ávarpi sínu í Hvíta húsinu í gær að hann myndi fjalla um byssulöggjöf „eftir því sem tímanum líður. “

Rannsókn lögreglu stendur enn yfir og ekki hefur tekist að greina hvað árásarmanninum, hinum 64 ára Stephen Paddock, gekk til með árásinni. BBC greinir frá því að einhverjir rannsakendur hafa gefið í skyn að Paddock hafi glímt við andleg veikindi en það hefur ekki verið staðfest.

Stephen Paddock skaut 59 manns til bana í Las Vegas …
Stephen Paddock skaut 59 manns til bana í Las Vegas í gær. Yfir 500 manns eru særðir. AFP

23 byssur fundust á hótelherbergi hans á Mandalay Bay hótelinu þar sem hann lét til skarar skríða. Fleiri skotvopn og sprengiefni fundust á heimili Paddock í bæn­um Mesquite í Nevada-ríki, sem er í 130 km fjar­lægð frá Las Vegas.

Trump ræddi við fjölmiðla áður en hann lagði af stað til Puerto Rico með forsetaþyrlunni þar sem hann mun kynna sér aðstæður og skemmdir sem fellibylurinn María olli fyrir hálfum mánuði. Trump lýsti Paddock eins og hann sér hann fyrir sér. „Þetta er veikur maður, geðveikur maður. Honum fylgja mörg vandamál, býst ég við, og við erum að skoða hann mjög, mjög alvarlega.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert