43 sakfelldir fyrir tilræði gegn Erdogan

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti.
Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti. AFP

Tyrkneskur dómstóll hefur fundið 43 hermenn seka um tilraun til að ráða Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta af dögum. Flestir voru dæmdir í lífstíðarfangelsi fyrir aðkomu sína að valdaránstilrauninni í júlí í fyrra.

Dómurinn var kveðinn upp í Mugla í suðvesturhluta landsins, ekki fjarri ferðamannaparadísinni þar sem Erdogan og fjölskylda hans dvöldu nóttina þegar hópur hermanna lét til skarar skríða gegn þeim.

41 hermaður var dæmdur í lífstíðarfangelsi en tveir fengu vægari dóma. 47 voru ákærðir; einn var sýknaður en enginn dómur var kveðinn upp í máli þriggja sem voru fjarverandi réttarhöldin, þ. á m. klerkurinn Fethullah Gulen, sem stjórnvöld segja hafa skipulagt valdaránstilraunina.

Hann dvelur í Bandaríkjunum.

Sumir hermannanna sögðu við dómsuppkvaðninguna að mál þeirra hefðu ekki fengið réttláta meðferð og að dómstóllinn gæti ekki kveðið upp réttlátan dóm, þar sem hann væru undir pólitískum þrýstingi.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert