Unnusta árásarmannsins yfirheyrð

Unnusta Stephen Paddock, sem skaut 58 til bana í Las Vegas, Marilou Danley, kom til Bandaríkjanna í nótt frá Filippseyjum. Paddock lagði 100 þúsund Bandaríkjadali, 10,6 milljónir króna, inn á reikning hennar áður en hann framdi ódæðið.

Marilou Danley kom til Los Angels frá Manila í nótt, að sögn talskonu innflytjendaeftirlits Bandaríkjanna, Maria Antoinette Mangrobang.

Lögregluyfirvöld á Filippseyjum (NBI) segja að bandaríska alríkislögreglan (FBI) hafi óskað eftir aðstoð þeirra til þess að hafa upp á Danley.

AFP

Talsmaður NBI, Nick Suarez, segir að Danley hafi komið til Filippseyja í síðasta mánuði og Paddock hafi síðan lagt inn á reikning hennar 100 þúsund dali. Suarez segir að FBI hafi viljað ná tali af Danley en gruni hana ekki um aðild að árásinni.

Paddock, 64 ára gamall fjárhættuspilari og endurskoðandi á eftirlaunum, skaut 58 til bana og særði að minnsta kosti 527 þegar hann lét byssukúlum rigna yfir gesti á tónleikum úr hótelherbergi sínu á sunnudagskvöldið, snemma á mánudagsmorgni að íslenskum tíma. Áður var talað um 59 fórnarlömb en inni í þeirri tölu var árásarmaðurinn sjálfur en hann framdi sjálfsvíg í hótelherberginu. 

Danley er 62 ára gömul og ástralskur ríkisborgari sem flutti til Bandaríkjanna fyrir 20 árum til þess að starfa í spilavíti. Utanríkisráðherra Ástralíu, Julie Bishop, segir að allt bendi til þess að persónulegar upplýsingar hennar hafi verið notaðar til þess að bóka hótelberbergið. Fréttir herma að Danley sé fædd á Filippseyjum en það hefur ekki fengist staðfest að yfirvöldum þar.

Marilou Danley.
Marilou Danley. AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur lýst Paddock sem sjúkum og vitstola manni en BBC hefur eftir háttsettum einstakling í heimavarnarráðuneytinu að engin gögn hafi komið fram sem bendi til þess að Paddock hafi glímt við andleg veikindi eða heilaskaða. Né heldur hafa fundist tengsl við hryðjuverkasamtök. Paddock var ekki á sakaskrá heldur.

Í hótelbergi Paddocks fundust 23 byssur auk fleiri vopna og sprengiefni á heimili hans. Alls hafa fundist 47 skotvopn tengd honum á þremur stöðum. 

 Lögreglan hefur birt myndskeið af árásinni. 

Stephen Paddock hafði komið fyrir nokkrum myndavélum bæði í hótelberberginu og í kringum það. Tvær myndavélar voru í ganginum og ein í gægjugati hurðarinnar. Þannig gat hann séð ef lögregla eða öryggisverðir nálguðust herbergið, að sögn lögreglu. Enn er verið að reyna að átta sig á því hvað varð til þess að Paddock ákvað að fremja árásina. Eitt er ljóst að árásin var þaulskipulögð.

Stephen Paddock.
Stephen Paddock. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert