„Heyri skothljóðin stanslaust í höfðinu“

AFP

Það eru engin sírenuhljóð, engir skothvellir, engin öskur. Það er nánast þögn. Svæðið í kringum Mandalay Bay hótelið í Las Vegas lítur aðeins öðruvísi út í dagsbirtu, tæpum þremur sólarhringum síðar.

Þar má hins vegar sjá fjölda yfirgefinna bíla þeirra sem reyndu í örvæntingu sinni að flýja undan byssumanninum sem lét skotin dynja á tónleikagestum á kántrítónlistarhátíðinni Route 91 Harvest. Ljóst er að ekki verða allir bílarnir sóttir.

Skrýtið að upplifa þögnina

Bíll hinnar 22 ára Kassidy Owen er þarna einhvers staðar. Hún var ein þeirra sem komst lífs af þegar Stephen Paddock myrti 59 og slasaði á sjötta hundrað í skotárás í Las Vegas á sunnudagskvöld.

AFP

„Það er skrýtið að upplifa þessa þögn,“ sagði Owens í samtali við The Washington Post á miðvikudag. Hún var komin að sækja bílinn sinn, líkt og fjöldi annarra, til að geta haldið áfram með líf sitt. Til að komast í vinnu, í skóla, eða einfaldlega heim til sín. „Ég man bara eftir hávaða,“ bætti Owen við.

Eftirlifendur árásarinnar eru að koma á vettvang í fyrsta skipti eftir árásina, sem mun eflaust breyta lífi þeirra til frambúðar. Þarna varð gleði, fögnuður og tónlist að blóðbaði, öngþveiti og skelfingu. Til að geta haldið áfram með líf sitt þurfa þessir einstaklingar að fara aftur á staðinn sem þeir héldu að þeir myndu deyja á.

Þegar Paddock hóf skothríðina hljóp Owen í ofboði að bílnum sínum þar sem hún reyndi að skýla sér fyrir byssukúlunum. Hún reyndi að keyra í burtu, en gat það ekki. Það var fólk hlaupandi út um allt, fólk féll látið í götuna og útkeyrslan af bílastæðinu stíflaðist. Þegar stutt hlé varð á tíu mínútna skothríðinni óttaðist hún að ljósin á bíl hennar gerðu hana og farþegana að upplýstu skotmarki.

AFP

„Þeir eru byrjaðir að skjóta aftur, dreptu á bílnum,“ hrópaði besti vinur bróðir hennar sem var farþegi í bílnum.

Það var þá sem hún stökk út úr bílnum og flúði. „Ég man bara eftir að hafa skellt hurðinni og hlaupið af stað,“ sagði hún við blaðamann Washington Post.

Nú er hún komin aftur á sama stað, situr í bílstjórasætinu á bílnum sínum. Augu hennar eru rauð og bólgin. Þetta er langt frá því að vera búið. „Ég heyri skothljóðin stanslaust í höfðinu á mér.“

Stökk yfir látið fólk á jörðinni

Carlos Alfaro-Sandoval var líka kominn að sækja bílinn sinn. Hann fær aðstoð lögregluþjóna við að leita að bílnum, sest upp í einn lögreglubílinn sem keyrir hægt af stað. Hann sér glerbrot á götunum og kúlnaför í steyptum veggjum. „Hann ætti að vera á bílastæðunum þar sem starfsmennirnir leggja, með öllum hvítu tjöldunum,“ segir hann við lögreglumennina þegar þeir keyra upp að svæði sem búið er að girða af. ­„Þetta er því miður lokað svæði,“ segir lögreglumaður við hann. „Þeir ætluðu í fyrstu að leyfa fólki að sækja bílana þangað en FBI telur að það þurfi að rannsaka þetta svæði betur.“

AFP

Alfaro-Sandoval starfaði sem barþjónn á kántríhátíðinni. Þegar hann heyrði fyrstu skothvellina reyndi hann að skýla sér en áttaði sig fljótlega á að hann þyrfti að koma sér í burtu. Hann skildi bílinn sinn eftir, bakpokann og þjórféð sem hann hafði fengið og hljóp af stað.

„Ég á börn, 4 mánaða og sjö ára,“ sagði hann í samtali við Washington Post. „Þess vegna hljóp ég.“

Hann vonaðist til að geta sótt bílinn á miðvikudaginn til að geta komið sér aftur í rútínu. Til að reyna að halda áfram með lífið. Það að hann fái bílinn ekki þýðir aðeins eitt, hann þarf að koma aftur einn daginn.

AFP

„Ég á erfitt með að sofa. Ég sé myndir í höfðinu á mér, heyri hvellina, sé fólk detta og blóð út um allt,“ sagði hann. „Það versta var að við stukkum yfir fólk sem lá á jörðinni, og fólk sem var að hjálpa öðrum að standa upp, en það gat ekki staðið upp, það var látið.“

„Ég verð að komast í burtu héðan“

Stephen Charshafian sá bílinn sinn síðast þegar hann og konan hans reyndu að flýja undan kúlnahríðinni. Hann heyrði þegar málmarnir skullu saman. Kúlurnar lentu á bílnum. Hann þekkti hljóðið strax og vissi að þau voru ekki örugg inni í bílnum. „Það hljómaði eins og kúlurnar væru að rífa bílinn í sundur,“ sagði Charshafian í samtali við Washington Post.

Hann yfirgaf því bílinn ásamt konu sinni og þau komust við illan leik inn í nálægt hverfi. Veskin sín og aðrar eigur skildu þau eftir í bílnum.

Charshafian reynir að halda aftur af tárunum þegar hann rifjar upp blóðbaðið og þann stutta tíma sem hann varð viðskila við konu sína.

AFP

Nú er hann kominn aftur á sama stað, þar sem aðeins nokkrum dögum áður hann hafði borið slasaða tónleikagesti upp í nálæga bíla og vísað sjúkrabílum veginn í gegnum þvöguna.

Hann er búsettur í Calif á Long Beach en fjölskyldan hafði rætt það að flytja til Las vegas, enda skólarnir þar betri væru betri, minna af veggjakroti og svæðið hreinna. Það er hins vegar ekki að fara að gerast núna.

„Ég vil ekki vera hérna lengur en ég þarf,“ sagði hann í samtali við blaðamann og röddin var við það að bresta. „Ég verð að komast í burtu héðan.“

Þetta var í þriðja skipti eftir árásina sem hann reyndi að nálgast bílinn sinn. Loksins tókst það. Eftir að hafa farið yfir kúlnaförin á bílnum gátu Charshafian og kona hans farið inn og keyrt í burtu – loksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert