Starfsmönnum ítrekað hótað

MICHAEL GRUBER

Starfsfólk Útlendingastofnunar Svíþjóðar verður ítrekað fyrir áreitni af hálfu fólks sem er orðið örvæntingarfullt yfir því að fá ekki lausn á málum sínum.

Á fyrstu níu mánuðum ársins voru tilkynnt 72 slík mál en í fyrra voru þau 43 talsins allt árið. Starfsmenn verða einnig fyrir áreitni í tölvupóstum, símtölum og á samfélagsmiðlum.

Helene Liss, sem annast öryggismál starfsmanna Útlendingastofunnar (Migrationsverket) í Stokkhólmi segir að vonbrigði skjólstæðinga liggi oft á bak við áreitnina.

„Þú hefur kannski beðið endalaust eftir því að mál þitt verði tekið fyrir og svo bíður þú eftir ákvörðun. Þá er hætta á pirringi," segir hún í samtali við Aftonbladet. „Eins hefur hótunum um sjálfskaða og sjálfsvíg fjölgað,“ bætir hún við.

Samkvæmt Aftonbladet hafa verið tilkynnt 2.875 atvik á níu mánaða tímabili. Af þeim eru 72 líflátshótanir eða hótanir um að ofbeldi verði beitt. Tæplega 163 þúsund manns sóttu um hæli í Svíþjóð árið 2015 og fleiri starfsmenn voru í kjölfarið ráðnir til Útlendingastofnunar.

Alls eru 85 þúsund í „kerfinu“, það er eru enn að bíða eftir svari eða hafa fengið synjun og bíða niðurstöðu áfrýjunar.

Frétt Aftonbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert