Weinstein biðst afsökunar á áreitni

Harvey Weinstein.
Harvey Weinstein. Ljósmynd/David Shankbone/Wikipedia

Kvikmyndaframleiðandinn Harvey Weinstein hefur beðist afsökunar eftir að dagblað greindi frá röð ásakana á hendur honum um kynferðislega áreitni.

„Ég veit að hegðun mín gagnvart samstarfsfólki mínu hefur valdið miklum sársauka og ég biðst innilegrar afsökunar á því,“ sagði Weinstein.

Hann er þekktastur sem annar af stofnendum Miramax sem framleiddi þó nokkrar vinsælar, óháðar myndir á borð við Pulp Fiction, Sex,Lies and Videotape, The Crying Game og Clerks.

The New York Times greindi frá því að Weinstein hafi áreitt konur sem hafa starfað með honum undanfarna þrjá áratugi.

Einnig var sagt frá því að framleiðandinn hafi komist að samkomulagi við átta konur um skaðabætur.

Mætti í baðsloppnum

Ein kvennanna sem hafa sakað hann um kynferðislega áreitni er leikkonan Ashley Judd. Hún sagði frá því þegar henn var boðið í svítu Weinstein á fínu hóteli í Beverly Hills fyrir tveimur áratugum síðan. Hún hélt að þau ætluðu að ræða viðskipti yfir morgunverði en í staðinn birtist Weinstein á baðslopp og spurði hvort hún vildi ekki nudda hann eða horfa á hann í sturtu.

Tveir af fyrrverandi aðstoðarkonum hans, auk ítalskrar fyrirsætu hafa svipaða sögu að segja. Talið er að þær hafi náð samkomulagi um skaðabætur.

Önnur aðstoðarkvennanna er sögð hafa verið göbbuð í að veita Weinstein nudd á meðan hann var nakinn. Eftir athöfnina var hún „grátandi og í miklu uppnámi“ að sögn kollega hennar, Lauren O´Connor, að því er The New York Times greinir frá.

Weinstein ætlar að taka sér leyfi frá fyrirtæki sínu og hefur ráðið sérfræðing til að aðstoða sig við að ná bata.

„Ferðalag mitt núna snýst um að læra meira um sjálfan mig og sigrast á djöflum mínum,“ sagði hann í yfirlýsingu.

„Ég ber virðingu fyrir öllum konum og sé mjög eftir því sem gerðist.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert