„Mama Jihad“ fær 10 ára dóm

Bardagar standa enn yfir í Raqa milli liðsmanna Ríkis íslam …
Bardagar standa enn yfir í Raqa milli liðsmanna Ríkis íslam og sýrlenskra hersveita. AFP

Dómstóll í Frakklandi hefur dæmt franska konu í 10 ára fangelsi fyrir „staðfasta skuldbindingu“ við jíhad; heilagt stríð. Konan ferðaðist þrisvar til Sýrlands til að styðja son sinn, sem fluttist þangað til að berjast með hryðjuverkasamtökunum Ríki íslam.

Um er að ræða hörðustu mögulegu refsingu samkvæmt frönskum lögum.

Christine Riviere, 51 árs, var m.a. fundin sek um að hafa aðstoðað fjölda ungra kvenna til að ferðast til Sýrlands þegar hún var að leita að konu fyrir son sinn Tyler Vilus.

Riviere, sem hefur verið kölluð „Mama Jihad“ í frönsku pressunni, heimsótti Vilus þrisvar á árunum 2013 og 2014 en við réttarhöldin sagðist hún hafa verið óttaslegin um að hann ætti ekki afturkvæmt til Frakklands.

Yfirvöld handtóku Riviere í júlí 2014, þegar hún var að undirbúa fjórðu heimsóknina. Vilus var handtekinn í Tyrklandi ári síðar og framseldur til Frakklands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert