Fjöldafundir gegn sjálfstæðri Katalóníu

Búist er að fjölmargir Spánverjar muni í dag mótmæla sjálfstæðistilburðum …
Búist er að fjölmargir Spánverjar muni í dag mótmæla sjálfstæðistilburðum íbúa Katalóníu. AFP

Búist er við að fjölmargir muni koma saman á Spáni í dag til að mótmæla hugmyndum um sjálfstæða Katalóníu og kalla eftir samstöðu á Spáni, en sl. sunnudag fóru fram umdeildar kosningar þar sem kosið var um sjálfstæði héraðsins.

Búið er að skipuleggja fjöldafundi í Madrid, höfuðborg Spánar, og í fleiri borgum. Stuðningsmenn sjálfstæðis hafa kallað eftir því að fjöldafundir fari einnig fram í Barcelona, sem er höfuðborg Katalóníuhéraðs. Þetta kemur fram á vef BBC.

Fulltrúar spænsku ríkisstjórnarinnar í Katalóníu hafa beðið mótmælendur afsökunar á því ofbeldi sem lögreglan beitti til að stöðva atkvæðagreiðsluna um síðustu helgi, m.a. með því að leggja hald á kjörkassa og stöðva framkvæmd kosninganna á kjörstöðum. Þeir segja hins vegar að héraðsstjórnin í Katalóníu beri ábyrgð á þessu með því að halda ólöglegar kosningar. 

Mörg hundruð hlutu meiðsl í aðgerðum lögreglunnar, þar á meðal 33 lögreglumenn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert