Hafa fundið höfuð Kim Wall

Sænski blaðamaðurinn Kim Wall.
Sænski blaðamaðurinn Kim Wall. AFP

Danska lögreglan greindi frá því á blaðamannfundi í morgun að höfuð og fætur sænsku blaðakonunnar Kim Wall hefðu fundist. 

Jens Møller Jensen, sem stýrir rannsókninni, sagði við blaðamenn að lögreglan hefði fundið tvo poka. Í öðrum þeirra hefði verið fatnaður sem tilheyrði Wall og í hinum þeirra var höfuð hennar og fætur. Jensen segir að tæknideild lögreglunnar hafi í gærkvöldi fengið þetta staðfest.

Höfuðlaus búkur Wall fannst fljótandi í sjónum skammt frá Kaupmannahöfn 21. ágúst. Peter Madsen, danski uppfinningamaðurinn var handtekinn 12. ágúst grunaður um að hafa myrt Wall og sundurlimað lík hennar. Hann hefur neitað sök. Þá var hann nýverið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald.

Peter Madsen sést hér ræða við lögreglumenn í ágúst.
Peter Madsen sést hér ræða við lögreglumenn í ágúst. AFP

Wall sást síðast á lífi um borð í kafbátnum Nautilus sem Madsen smíðaði með aðstoð sjálfboðaliða árið 2008. Wall, sem meðal annars hafði skrifað greinar í Guardian og New York Times, var að vinna að umfjöllun um Madsen þegar hún hvarf sporlaust hinn 10. ágúst síðastliðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert