Systir Kim Jong-un fær stöðuhækkun

Kim Jong-un tilkynnti um stöðuhækkun Kim Yo-jong á fundi í …
Kim Jong-un tilkynnti um stöðuhækkun Kim Yo-jong á fundi í gær. AFP

Kim Yo-jong, yngsta dóttir Kim Jong-il fyrrverandi leiðtoga Norður Kóreu, hefur tekið við af frænku sinni sem meðlimur æðstu valdastofnunar Norður Kóreu. Kim Jong-un tilkynnti stöðuhækkunina á fundi í gær, að því er BBC greinir frá.

Kim Yo-jong, sem er 30 ára gömul, hefur oft komið fram opinberlega með bróður sínum og er talin bera ábyrgð á opinberri ímynd leiðtogans. Fyrir stöðuhækkunina var hún þegar orðin áhrifamikil í áróðursstjórnun landsins og er á svörtum lista í Bandaríkjunum vegna tengsla sinna við mannréttindabrotin sem framin eru í Norður Kóreu.

Kim fjölskyldan hefur verið við stjórnvölinn í Norður Kóreu síðan undir lok síðari heimsstyrjaldarinnar árið 1948 og sérfræðingur BBC, Danny Savage, segir stöðuhækkun Kim Yo-jung enn eitt dæmið um heljargreipina sem fjölskyldan hefur á landinu.

Meðal annarra tilkynninga sem fram komu á fundinum í gær var stöðuhækkun utanríkisráðherra Norður Kóreu, Ri Yong-ho, en hann hefur nú fullgildan atkvæðisrétt í æðstu valdastofnun landsins. Í síðasta mánuði kallaði Ri Yong-ho Donald Trump Bandaríkjaforseta „forsetann illa“ (e. President Evil) á fundi Sameinuðu þjóðanna. Auk þess gaf hann nýlega út yfirlýsingu þess efnis að ef forsetinn haldi áfram hættulegri orðræðu sinni verði Bandaríkin óhjákvæmilega skotmark eldflaugaskota Norður Kóreumanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert