Sakar leyniþjónustu um að brugga launráð

Denis Voronenkov liggur í blóði sínu fyrir utan hótel í …
Denis Voronenkov liggur í blóði sínu fyrir utan hótel í Kænugarði. Hann lést í árásinni. AFP

Ríkissaksóknari Úkraínu sakar rússnesku leyniþjónustuna um að hafa ráðið glæpaforingja til þess að skipuleggja morð á fyrrverandi þingmanni á rússneska þinginu og harðan gagnrýnanda stjórnvalda í Kreml.

Denis Voronenkov, 45 ára, var skotinn til bana um miðjan dag 23. mars í Kænugarði. Yfirvöld í Úkraínu sögðu á þeim tíma að um leigumorð hafi verið að ræða. Ríkisaksóknari, Yuriy Lutsenko, sakar FSB um að hafa ráðið Vladimir Tyurin, þekktan rússneskan glæpaforingja frá síberísku borginni Bratsk, til þess að skipuleggja morðið.

Lutsenko segir að Tyurin, sem talinn er búa í Rússlandi, hafi haft persónulega harma að hefna en hann er fyrrverandi sambýlismaður eiginkonu Voronenkov, Maksakova.

Talsmaður Kreml, Dmitry Peskov, hefur ítrekað hafnað ásökunum stjórnvalda í Úkraínu um að rússnesk yfirvöld hafi komið að morðinu og sagt þær fjarstæðukenndar. Hann hefur hins vegar ekki tjáð sig um nýjustu ásakanir yfirvalda í Kænugarði.  

Lutsenko segir að hann muni fara með málið fyrir rétt í Úkraínu en Rússland og Úkraína hafa tekist hart á um yfirráð yfir Krímskaga undanfarin ár. 

Sá sem skaut Voronenkov til bana lést á sjúkrahúsi skömmu eftir morðið en hann var skotinn af lífverði Voronenkov.

Voronenkov flúði frá Rússlandi í október í fyrra ásamt eiginkonu sinni, Maria Maksakova, en hún sat áður á þingi og þekkt óperusöngkona.  

Voronenkov fékk úkraínskan ríkisborgararétt í desember eftir að hann bar vitni gegn Viktor Yanukovych, fyrrverandi forseta landsins sem naut stuðnings Rússa og er nú í sjálfskipaðri útlegð þar í landi. 

Lutsenko segir að morðið á Voronenkov tengist vitnisburði hans tengdum rússneskum hermönnum á í Úkraínu sem og réttarhöldunum yfir Viktor Yanukovych.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert