Segja Bandaríkjamenn þykjast berjast við ISIS

Sýrlenskir stjórnarhermenn vaða í ánni Efrates, austan við Deir ez-Zur. …
Sýrlenskir stjórnarhermenn vaða í ánni Efrates, austan við Deir ez-Zur. Myndin tengist fréttinni ekki beint. AFP

Rússnesk yfirvöld saka Bandaríkjamenn um að „þykjast berjast“ við hryðjuverkasamtökin ISIS í Sýrlandi og Írak. Í yfirlýsingu frá varnarmálaráðuneyti Rússlands segir að Bandaríkjamenn hafi dregið úr loftárásum sínum til þess að „leyfa“ vígamönnum samtakanna að streyma inn í Sýrland, til þess að hægja á sókn sýrlenska hersins, sem studd er af Rússum.

Í yfirlýsingunni segir að Bandaríkin og bandamenn þeirra hafi dregið mikið úr loftárásum sínum í Írak þegar sýrlenskar hersveitir hafi byrjað að ná yfirráðum í Deir ez-Zor héraði í austurhluta Sýrlands.

„Allir sjá að Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra eru að þykjast berjast við ISIS,“ segir Igor Konashenkov, talsmaður rússneska varnamálaráðuneytisins. Afleiðingar þessa segir hann vera að liðsmenn hryðjuverkasamtakanna eigi auðveldara með að komast yfir landamærin frá Írak til Sýrlands, þar sem þeir taki þátt í bardögum gegn sýrlenska stjórnarhernum, sem nýtur stuðnings Rússa úr lofti.

Hann segir aðgerðir Bandaríkjamanna krefjast útskýringa. „Eru Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra að reyna að flækja aðgerðir sýrlenska hersins eins mikið og þeir geta?“ spyr Konashenkov.

Frétt Reuters

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert