Sekt við hákarlabúningi vegna búrkubanns

Lögregla í Zell am See í Austurríki biður konu hér …
Lögregla í Zell am See í Austurríki biður konu hér að fjarlægja slæðuna frá andliti sínu eftir að búrkubannið tók gildi. AFP

Bann við búrkum og öðrum höfuðfatnaði sem hylur andlitið tók nýlega gildi í Austurríki. Bannið hefur þegar valdið nokkrum ruglingi hjá lögreglu í landinu. Karlmaður í hákarlabúningi sem lögregla hafði nýlega afskipti af þykir gott dæmi um ruglinginn sem bannið valdi.

„Þetta eru ný lög, þannig að það er eðlilegt að upp komi óljósar aðstæður og grá svæði sem þarf að skýra betur,“ sagði Manfred Reinthaler hjá lögreglunni í Vín í samtali við ríkisútvarpsstöðina. „Á sama tíma þá á þetta sér ekkert lagalegt fordæmi.“

Austurríki bættist nýlega í hóp þeirra Evrópuríkja sem hafa lagt bann við búrku eða niqab á almannafæri. Lögin tóku gildi 1. október sl.

Til að koma í veg fyrir að stjórnvöld fengju á sig kæru á grundvelli mismununar létu stjórnvöld bannið ná til alls þess fatnaðar sem hylur andlitið frá enni að höku. Nokkrar undantekningar voru veittar frá banninu, m.a. grímur og grímubúningar vegna menningaviðburða, sem og grímur heilbrigðisstarfsfólks og notkun trefla fyrir andlitinu í miklum kulda.

Hákarlabúningurinn – sem lukkudýr McShark-tölvuverslananna klæðist – flokkaðist hins vegar ekki til undantekninganna og þá þykir það enn frekar til merkis um ráðaleysi sumra lögreglumanna að þeir stöðvuðu einnig stúlku með hálsklút á hjóli.

„Löggjafinn tilgreindi ekki hitastigið (hvenær nota megi trefil),“ sagði Karl-Heinz Grundboeck, talsmaður innanríkisráðuneytisins. Hann sagði heldur ekki liggja fyrir hversu margir hefðu til þessa verið sektaðir vegna nýju laganna, en hámarkssekt vegna laganna er tæpar 19.000 kr.

Búrkur eru ekki algengur klæðnaður í Austurríki og er bannið talið vera síðasta útspil stjórnarflokkanna til að ná til sín fylgi frá Frelsisflokknum, sem framfylgir harðri innflytjendastefnu.

Skoðanakannanir gefa til kynna að Frelsisflokkurinn kunni að hljóta allt að 25% atkvæða í kosningum sem fram fara í landinu á sunnudag og kunni því að komast í ríkisstjórn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert