Vill viðræður um sjálfstæði Katalóníu

Carles Puigdemont, forseti Katalóníu, flytur ávarp sitt.
Carles Puigdemont, forseti Katalóníu, flytur ávarp sitt. AFP

Carles Puigdemont, forseti Katalóníu, lýsti því yfir fyrir þinginu í Barcelona að hann hygðist fylgja vilja fólksins sem vildi lýsa yfir sjálfstæði. Fyrst vildi hann þó fara í viðræður við spænsk yfirvöld. Í ræðu sinni sagði Puigdemont að Katalónía hefði unnið sér inn réttinn til að lýsa yfir sjálfstæði, nú hlusti allir á Katalóníu sem hafi lengi staðið í baráttu fyrir auknu sjálfræði. 

Leiðtoginn hélt ræðuna á katalónsku en skipti yfir í spænsku og sagði: „Við erum ekki glæpamenn. Við erum ekki brjáluð. Við erum venjulegt fólk og við viljum einfaldlega fá að kjósa. Við höfum verið tilbúin í viðræður, við höfum ekkert á móti Spáni en sambandið hefur ekki gengið vel í mörg ár og er ósjálfbært. “

Hélt sögustund

Í ræðunni fór leiðtogi Katalóníu yfir sögu hennar og sjálfstæðisbaráttu héraðsins í löngu máli og lýsti því yfir að hann væri ekki að hóta neinum og vildi ekki móðga neinn. Hann talaði um að lýðræði væri eina leiðin áfram og að margir hefðu haft samband til að segja sér hvað hann ætti, og hvað hann ætti ekki að gera.

Þá vísaði Puigdemont til þess spænsk yfirvöld hefðu undanfarin ár neitað því að taka þátt í viðræðum um aukna sjálfstjórn eða lýðræði. Forsetinn vísaði jafnframt til þess ofbeldis sem spænsk yfirvöld hefðu beitt kjósendur í þeim tilgangi að koma í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna og sagði slíkt ekki eiga sér fordæmi. Ekki væri vitað nákvæmlega hversu margir hefðu kosið þar sem að atkvæðakassar hafi verið gerðir upptækir en það hefði þó ekki komið i veg fyrir að kosningarnar færu fram. Þá þakkaði Puigdemont öllum þeim sem gerðu kosningarnar að veruleika við fögnuð viðstaddra. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert