Weinstein sakaður um nauðgun

Harvey Weinstein.
Harvey Weinstein. AFP

Kvikmyndaframleiðandinn Harvey Weinstein er sakaður um nauðgun í umfjöllun sem birtist í dag í bandaríska tímaritinu New Yorker. Fram kemur í umfjölluninni að tímaritið hafi rætt við þrjár konur sem saki Weinstein um að hafa neytt þær til kynmaka.

Fjallað er um málið á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph þar sem segir að Weinstein hafi alfarið hafnað þessum ásökunum. Ein kvennanna þriggja er ítalska leikkonan Asia Argento. Tímaritið hefur einnig birt hljóðupptöku af samtali á milli Weinsteins og ítölsku fyrirsætunnar Ambra Battilana Gutierrez frá árinu 2015.

Gutierrez var með upptökubúnað en hún hafði leitað til lögreglunnar vegna fyrri samskipta við Weinstein og sakaði hann um að hafa beitt sig kynferðisofbeldi. Weinstein heyrist á upptökunni hvetja Hutierrez til þess að koma inn í svefnherbergi hans með þeim orðum að hún ætti ekki að eyðileggja vináttu þeirra fyrir fimm mínútur.

Leikonurnar Mira Sorvino og Rosanna Arquette gefa einnig í skyn við New Yorker að það hafi komið sér illa fyrir feril þeirra að hafa hafnað Weinstein þegar hann hafi reynt við þær.

Þá kemur fram í tímaritinu að sextán núverandi og fyrrverandi yfirmenn og aðstoðarfólk í framleiðslufyrirtækjunum Weinstein Co. og Miramax hafi annað hvort orðið vitni að eða vitað af kynferðislegri áreitni hans.

Fram kemru í yfirlýsingu frá talsmanni Weinsteins að öllum ásökunum um kynmök án samþykkis væri hafnað af hans hálfu. Þá hafi það ekki bitnað á neinum konum þó þær hafi hafnað því að eiga í kynferðissambandi við hann.

Samkvæmt yfirlýsingunni hefur Weinstein þegar leitað sér hjálpar og vonist til þess að fá annað tækifæri nái hann bata. Þrettán konur höfðu áður sakað Weinstein um að kynferðislega áreitni frá því á tíunda áratug síðustu aldar og fram til ársins 2015.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert