5 manna fjölskyldu bjargað frá talibönum

Pakistanskir hermenn standa vörð við eftirlitsstöð í Parachinar, höfustað Kurram …
Pakistanskir hermenn standa vörð við eftirlitsstöð í Parachinar, höfustað Kurram ættflokksins. AFP

Pakistanskir hermenn hafa leyst fimm manna kanadísk-bandaríska fjölskyldu úr haldi afganskra talibana. Parinu Joshua Boyle, sem er Kanadamaður, og Caitlan Coleman, sem er bandarísk, var rænt á bakpokaferðalagi í Afganistan árið 2012. Þau hafa eignast þrjú börn á þeim tíma sem þau hafa verið fangar talibana.

Pakistanski herinn segir fjölskyldunni hafa verið bjargað í aðgerðum nærri landamærum Afganistan, eftir að vísbending barst frá Bandaríkjaher. Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði málið vera „jákvæða stund“ í samskiptum Bandaríkjanna og Pakistan, að því er BBC greinir frá.

„Coleman fæddi þrjú börn parsins á meðan þau voru í haldi,“ sagði í yfirlýsingu frá Trump. „Þau eru frjáls í dag.“

Þá sagði hann samstarf stjórnvalda í Pakistan vera til merkis um að þau virði óskir Bandaríkjanna um að auka öryggi á svæðinu.

Í yfirlýsingu frá pakistanska hernum segir að bandarískar njósnastofnanir hafi fylgst með ferðum fjölskyldunnar í Afganistan og að tilkynning hafi borist í gær um að búið væri að flytja fjölskylduna yfir á svæði Kurram ættflokksins í Pakistan.

Talibanar hafa birt myndbönd af fjölskyldunni þann tíma sem hún hefur verið í varðhaldi, m.a. í tengslum við kröfu sína um að þrír talibanar verði látnir lausir úr fangelsi í Afganistan.

Síðasta myndbandið af fjölskyldunni var birt í desember á síðasta ári og þar sést parið ásamt tveimur ungum drengjum. Coleman, sem var ólétt þegar þeim var rænt, sést í myndbandinu biðja um að þessari „Kafkalíku martröð“ fari að ljúka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert