Bandaríkin segja sig úr UNESCO

Ríkisstjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta hefur endurskoðað margar alþjóðlegar skuldbindingar Bandaríkjanna.
Ríkisstjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta hefur endurskoðað margar alþjóðlegar skuldbindingar Bandaríkjanna. AFP

Bandaríkin hafa sagt sig úr UNESCO, Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, og saka stofnunina um að hneigjast gegn Ísraelsríki. Talsmaður utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna segir þau munu koma á fót eftirlitssendisveit, í stað fulltrúa sinna í höfuðstöðvum stofnunarinnar í París.

Rætur þessarar ákvörðunar má rekja til ársins 2011, þegar aðildarríki UNESCO veittu Palestínu fulla aðild að stofnuninni, þrátt fyrir andstöðu Ísraelsríkis.

Stjórnvöld í Washington hafa ætíð lagst gegn hvers kyns hreyfingum stofnana SÞ í þá átt að viðurkenna Palestínu sem fullvalda ríki. Telja þau að slíkar ákvarðanir þurfi að bíða þar til samið verði um frið í Mið-Austurlöndum.

Aukinn seinagangur og þörf á umbótum

Á undanförnum mánuðum hefur ríkisstjórn Donalds Trump enn fremur endurskoðað margar skuldbindingar Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi, í samræmi við þá stefnu sem Trump kýs að kalla „Ameríka fyrst“.

Talsmaður utanríkisráðuneytisins, Heather Nauert, segir ráðuneytið hafa látið framkvæmdastjóra UNESCO, Irinu Bokova, vita af úrsögninni fyrr í dag.

„Þessi ákvörðun var ekki tekin af léttúð, og endurspeglar áhyggjur Bandaríkjanna af auknum seinagangi stofnunarinnar, þörfinni á umfangsmiklum endurbótum innan hennar, og áframhaldandi hneigð gegn Ísrael,“ segir hún í yfirlýsingu.

Bokova segir úrsögn Bandaríkjanna fela í sér högg fyrir alþjóðahyggju.

„Það tekur mig virkilega sárt að þessi ákvörðun Bandaríkjanna hafi verið tekin, að þau dragi sig út úr UNESCO.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert