Trump kvartar yfir kostnaði fellibyljanna

Donald Trump Bandaríkjaforseti henti rúllum af klósettpappíer í íbúa er …
Donald Trump Bandaríkjaforseti henti rúllum af klósettpappíer í íbúa er hann heimsótti Cavalry kapelluna í Guaynabo á Púertó Ríkó. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur kvartað yfir fjárútlátum bandarískra stjórnvalda vegna hjálparstarfs á Púertó Ríkó í kjölfar fellibyljarins Maríu. Segir Trump alríkisaðstoðina ekki geta haldið áfram „endalaust“ að því er BBC greinir frá.

Forsetinn nýtti sér samfélagsmiðilinn Twitter, líkt og oft áður, til umkvartana sinna. Sakaði hann stjórnvöld á Púertó Ríkó um að skorta alla ábyrgð og sagði „rafmagn og innviði hafa verið hörmung fyrir fellibylinn.“

90% af þeim 3,4 milljónum sem búa á Púertó Ríkó eru enn án rafmagns, en þrjár vikur eru nú frá því að María fór þar yfir og olli miklu tjóni.

Bandaríkjaþing er nú að íhuga neyðaraðstoðar upp á 36,5 milljarða bandaríkjadollara fyrir íbúa Púertó Ríkó, Texas, Flórída og Jómfrúreyjar sem nýlega hafa orðið illa fyrir barðinu á fellibyljum. Hluti neyðaraðstoðarinnar er einnig hugsaður fyrir Kaliforníu, sem nú berst við kröftuga skógarelda.

Donald Trump Bandaríkjaforseti ræðir við íbúa í Guaynabo á Púertó …
Donald Trump Bandaríkjaforseti ræðir við íbúa í Guaynabo á Púertó Ríkó í síðustu viku. AFP

Sakaður um ætla að yfirgefa íbúa

Sagði Trump á Twitter í dag að það væri „þingsins að ákveða hve miklu verði eytt.“

„En við getum ekki haldið FEMA [almannavarnarstofnun Bandaríkjanna], hernum og björgunarsveitum, sem hafa staðið sig frábærlega (við erfiðar aðstæður) í P.R. [Púertó Ríkó] að eilífu!“

45 manns fórust á bandarískri grund af völdum Maríu og 100 til viðbótar er enn saknað.

Twitter-skilaboð Trumps vöktu reiði hjá þingmönnum Demókrataflokksins sem sökuðu hann um að undirbúa að yfirgefa bandaríska ríkisborgara.

„Þarna er enn eyðilegging. Bandaríkjamenn eru enn að deyja. FEMA þarf að vera um kyrrt þar til verkinu lýkur,“ sagði Chuck Schumer leiðtogi Demókrata í öldungadeildinni í sínum Twitter-skilaboðum.

Þá sagði þingkonan Nydia Velazquez, sem fæddist á Púertó Ríkó, að orð forsetans væru „óverjanleg og óábyrg“.

Trump heimsótti Púertó Ríkó í síðustu viku og sagði íbúum þá að hjálparstarfið hefði eyðilagt fjármálaáætlun stjórnarinnar. Þá sagði hann íbúum að þeir ættu að vera „mjög stoltir“ af því að tala látinna væri ekki jafn há og í „alvöru hörmungum“ á borð við fellibylinn Katarínu sem fór yfir New Orleans 2005.

Forsetinn sætti þá gagnrýni yfirvalda á Púertó Ríkó er hann henti klósettpappír í íbúa í heimsókn sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert