Vilja frekar engan samning en slæman

AFP

Mikill meirihluti Breta vill frekar engan samning um framtíðartengsl Bretlands við Evrópusambandið eftir að landið yfirgefur sambandið formlega í lok mars 2019 en slæman samning. Þetta er niðurstaða skoðanakönnunar á vegum bresku sjónvarpsstöðvarinnar Sky. 

Fram kemur á Twitter-síðu fréttastofu Sky að 74% Breta séu þessarar skoðunar en 26% telji hins vegar að allir samningar séu betri en enginn samningur. Breska ríkisstjórnin tilkynnti fyrr í vikunni að hafinn væri undirbúningur fyrir þann möguleika að samningar næðust ekki.

Meirihluti breskra kjósenda, eða 52%, samþykkti í þjóðaratkvæði sumarið 2016 að segja skilið við Evrópusambandið og hafa bresk stjórnvöld síðan unnið að því markmiði. Formlegar viðræður hófust fyrr á þessu ári en þær þykja á heildina litið ekki hafa gengið nógu vel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert