Sakar Weinstein um nauðgun

Harvey Weinstein.
Harvey Weinstein. AFP

Breska leikkonan Lysette Anthony bættist í gær í hóp þeirra kvenna sem sakað hafa bandaríska kvikmyndaframleiðandann Harvey Weinstein um að hafa nauðgað sér. Fjórar konur hafa áður sakað hann um það sama.

Weinstein hitti Anthony að hennar sögn þegar hún lék í kvikmyndinni Krull árið 1982 en hann hafi síðan nauðgað sér nokkrum árum síðar á heimili hennar í London, höfuðborg Bretlands. Þau hafi fyrst hist í íbúð sem hann hafi haft á leigu í borginni og fengið sér í glas. „Það næsta sem ég vissi var að hann var orðinn hálfnakinn og greip í mig.“

Leikkonan segir í samtali við breska dagblaðið Sunday Times að hún hafi í kjölfarið flúið úr íbúðinni. Þá hafi Weinstein farið að leggja hana í einelti. Kvikmyndaframleiðandinn hafi síðan seinna ráðist á hana á heimili hennar þegar hún hafi komið heim.

„Hann ýtti mér inn og þrýsti mér upp að fatahenginu. Hann reyndi að kyssa mig og fara inn í mig,“ segir Anthony sem leikur í sápuóperunni  Hollyoaks. Hún hafi reynt að ýta honum í burtu en ekki ráðið við hann. „Að lokum gafst ég upp.“ 

Anthony hefur tilkynnt nauðgunina til lögreglunnar. Málið er til rannsóknar. Tugir kvenna, einkum leikkonur, hafa sakað Weinstein um kynferðisofbeldi að undanförnu og var hann í gær rekinn úr bandarísku kvikmyndakademíunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert