Trump ekki áhugasamur um fríverslun

Hillary Clinton.
Hillary Clinton. AFP

„Þið eruð að semja um viðskipti við einhvern sem segist ekki trúa á milliríkjaviðskipti,“ segir Hillary Clinton, fyrrverandi forsetaframbjóðandi í Bandaríkjunum, í viðtali við breska ríkisútvarpið BBC í dag um mögulegan fríverslunarsamning á milli Bretlands og Bandaríkjanna í kjölfar útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.

Clinton vísar þar til Donalds Trump Bandaríkjaforseta sem hún beið ósigur fyrir í forsetakosningunum fyrir tæpu ári síðan. Clinton segist í viðtalinu telja að útganga Bretlands úr Evrópusambandinu sé ekki hagstæð fyrir Breta og gæti átt eftir að neyða fyrirtæki til þess að færa starfsemi sína að hluta eða í heild frá Bretlandi.

Sagðist hún ekki telja að hægt yrði að bæta fyrir möguleg glötuð viðskiptatengsl við Evrópusambandið takist ekki samningar á milli Bretlands og sambandsins um viðskipti og framtíðartengsl eftir útgönguna úr sambandinu með fríverslunarsamningi við Bandaríkin enda væri Trump ekki mjög áhugasamur um fríverslun á milli ríkja. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert