Allen sagður „andstyggilegur lítill ormur“

Woody Allen og Harvey Weinstein.
Woody Allen og Harvey Weinstein. AFP

Leikstjórinn Woody Allen hefur neyðst til að útskýra hvað hann átti við þegar hann sagðist vera leiður vegna máls framleiðandans Harvey Weinstein. Fjöldi kvenna hefur stigið fram síðustu daga og sagt frá áreiti af hendi Weinstein. Nokkrar leikkonur hafa sakað hann um nauðgun.

Allen var gagnrýndur fyrir ummæli sín þar sem hann sagðist finna til með Weinstein. „Þetta er sorglegt fyrir alla sem eiga hlut að máli,“ sagði Allen í samtali við BBC.

„Sorglegt fyrir konurnar sem þurfa að ganga í gegnum þetta og Harvey [Weinstein] vegna þess að hans lífi hefur verið snúið á hvolfi. Það eru engir sigurvegarar í svona málum,“ bætti Allen við.

Hann varaði einnig við því að andrúmsloftið sem ríkti núna gæti leitt við „nornaveiða“ og útskýrði það þannig að hver sem sá blikkaði konu þyrfti að hringja í lögfræðing til að verja sig.

Rose McGowan, ein þeirra kvenna sem hefur sakað Weinstein um að hafa ráðist á sig, sagði að Allen væri „andstyggilegur lítill ormur.“

Allen sendi frá sér yfirlýsingu vegna málsins í gær þar sem hann harmaði að orð sín hefðu verið misskilnin. „Þegar ég sagðist finna til með Harvey Weinstein þá hélt ég að það væri skýrt að ég segi það vegna þess að hann er sjúkur maður,“ sagði Allen.

Frétt Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert