Bloggari myrtur með bílasprengju

Joseph Muscat, forsætisráðherra Möltu, sagði morðið á Galizia vera
Joseph Muscat, forsætisráðherra Möltu, sagði morðið á Galizia vera "villimannslegt" og að rannsókn þess hefði algjöran forgang hjá leyniþjónustu landsins. AFP

Bloggarinn Daphne Caruana Galizia, sem sakaði stjórnvöld á Möltu um spillingu lést í dag fyrir tilstylli bílasprengju. Joseph Muscat, forsætisráherra Möltu, staðfesti lát Galiza sem var vinsæll bloggari í heimlandi sínu.

Muscat fordæmdi morðið og sagði það „villimannslegt“, og kvað leyniþjónustu eyjunnar hafa fengið skipun um að setja rannsókn málsins í forgang svo hægt væri að handtaka þá sem beri ábyrgð á tilræðinu.

„Það sem gerðist í dag er óásættanlegt á svo margan máta. Þetta er svartur dagur fyrir lýðræðið og málfrelsi okkar,“ sagði Muscat. „Ég mun ekki una mér hvíldar þar til réttlætið nær fram að ganga.“

Fjórir mánuðir eru frá því að Verkamannaflokkur Muscats vann yfirburðasigur í þingkosningum í landinu, en Muscat hafði boðað til kosninga snemma vegna röð hneykslismála innan flokksins sem ásakanir Galizia áttu stóran þátt í að afhjúpa og tengdust Panamaskjölunum svo nefndu.

Eiginkona Muscats var meðal þeirra sem sakaðir voru um spillingu, en Muscat sjálfur hefur alltaf neitað því að hafa gert nokkuð rangt og hét því að segja af sér ef í ljós kæmi að fjölskylda hans ætti leynilega aflandsreikninga líkt og Galizia hafði fullyrt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert