Jarðarförum frestað vegna Ófelíu

Fellibylurinn Ófelía stefnir nú til Írlands.
Fellibylurinn Ófelía stefnir nú til Írlands. AFP

Fellibylurinn Ófelía stefnir nú á Írland og hefur írska veðurstofan varað við að stormurinn geti haft lífshættulegar afleiðingar þegar hann nær landi.

Svokölluðu gulu viðbúnaðarstigi, það er lægsta viðbúnaðarstigi, hefur verið lýst yfir á Norður-Írlandi, vesturhluta Wales, suðvestur Skotlandi og á eyjunni Isle of Man. Á þessum svæðum er talið að leifar af Ófelíu muni ná landi.

Rautt viðbúnaðarstig er hins vegar á Írlandi og er herinn í viðbragðsstöðu. Mesti vindhraði hefur nú mælst 41 metri á sekúndu, við suðurströnd Írlands. Ófelía er nú á leið frá Azor­eyj­um yfir Atlants­hafið og er fyrsta stigs felli­byl­ur.

Veðurfræðingurinn Joanna Donnelly segir í samtali við BBC að búast megi við að vindstyrkur Ófelíu muni magnast á Írlandi í kringum hádegi.

Fellibylurinn er nú þegar farinn að hafa áhrif og samkvæmt The Irish Times eru um 100.000 heimili og fyrirtæki án rafmagns, fjöldi verslana eru lokaðar og almenningssamgöngur liggja niðri að hluta. Einnig hefur skólahaldi verið aflýst í átta sýslum.

Þá dæmi eru um að jarðarförum hafi verið frestað vegna veðursins. „Við höfum frestað jarðarför til morguns vegna heilsufars- og öryggisástæða. Fjölskyldan og kirkjan styðja þá ákvörðun,“ segir Charles O´Sullivan, útfararstjóri í vesturhluta Cork í samtali við Irish Times. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert