Leiðtogar sjálfstæðissinna dæmdir í gæsluvarðhald

Mótmælendur veifa fánum Spánar og Katalóníu og Spánar í Barcelona. …
Mótmælendur veifa fánum Spánar og Katalóníu og Spánar í Barcelona. Á spjöldunum stendur "Já Katalónía og Spánn líka". Sjálfstæðissinnar hafa nú boðað til frekari mótmæla til að krefjast þess að þeir Sánchez og Cuixart verði látnir lausir. AFP

Dómari á Spáni hefur úrskurðað tvo leiðtoga sjálfstæðishreyfingar Katalóníu i gæsluvarðhald. Þeir Jordi Sánchez, sem er forseti Katalónska þingsins (ANC) og Jordi Cuixart, sem er leiðtogi samtakanna Omnium Cultural, hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald án möguleikans á að vera látnir lausir gegn greiðslu tryggingagjalds. Frá þessu er greint á vef BBC.

Báðir eru þeir taldir í hópi þeirra lykilmanna sem skipulögðu sjálfstæðiskosningarnar sem haldnar voru í Katalóníu 1. október, kosningum sem spænskir dómstólar úrskurðuðu ógildar og sem stjórnvöld í Madrid segja hafa verið ólöglegar.

Í kjölfar kosninganna undirritaði Carles Puigdemont, forsætisráðherra Katalóníu, yfirlýsingu um sjálfstæði Katalóníu en frestaði gildistöku hennar til að veita rúm fyrir samningaviðræður við Spán. Hvatti Puigdemont til þess að næstu tveir mánuðir verði notaðir til viðræðna. Spænsk stjórnvöld hafa hins vegar sagt katalónsk yfirvöld þurfa að afturkalla yfirlýsinguna eða eiga yfir höfði sér að spænsk stjórnvöld afturkalli þá sjálfsstjórn sem héraðið hefur.

Puigdemont hefur einnig vakið reiði ráðamanna í Madrid með því að neita að taka allan vafa af hvort hann hafi lýst yfir sjálfstæði Katalóníu eða ekki.

Segja yfirvöld þá Sánchez og Cuixart hafa hvatt mótmælendur til dáða er spænska lögreglan reyndi að hindra kosninguna. Hafa sjálfstæðissinnar nú hvatt til enn frekari mótmæla og krefjast þeir þess að þeir Sánchez og Cuixart verði látnir lausir.

Skömmu áður en gæsluvarðhaldsúrskurður var kveðinn upp yfir þeim, úrskurðaði Hæstiréttur Spánar að Josep Lluis Trapero, lögreglustjóri Katalóníu, skyldi látinn laus en lögreglusveitir hans eru sakaðar um að hafa ekki aðstoðað spænsku lögregluna við að hindra kosninguna eða við að hafa stjórn á mótmælendum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert