Þrír látnir á Írlandi

Fellibylurinn Ófelía lætur til sín taka við Porthcawl í Suður-Wales.
Fellibylurinn Ófelía lætur til sín taka við Porthcawl í Suður-Wales. AFP

Fellibylurinn Ófelía gengur nú yfir Bretlandseyjar og hefur valdið töluverðum skaða, aðallega á Írlandi.

Frétt mbl.is: Kona lést í óveðrinu á Írlandi

The Irish Times greinir frá því að þrír eru látnir. Kona lést þegar tré féll á bíl henn­ar í Vest­ur-Water­ford í morg­un. Maður lést af sömu orsökum í Louth. Þá lést maður á þrítugsaldri þegar hann slasaðist illa við hreinsunarstörf eftir að tré féll á veg. Maðurinn var fluttur á sjúkrahús þar sem hann lést.

Um 360.000 heimili og fyrirtæki eru án rafmagns og óljóst er hvenær hægt verður að koma rafmagninu aftur á.

Mikil rigning og sterkar vindhviður fylgja óveðrinu. Þök hafa fokið af húsum og stúkur á knattspyrnuvöllum hafa hrunið í sundur. Ljóst er að eyðileggingin af völdum Ófelíu verður gríðarlega mikil.

Ófelía færir sig nú yfir til suðvesturhluta Írlands og hefur neyðarástandi verið lýst yfir. Almenningssamgöngur hafa legið niðri í dag og skólum hefur verið lokað. Hefðbundið skólastarf mun ekki fara fram á morgun, þriðjudag.

Frétt mbl.is: Jarðarförum frestað vegna Ófelíu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert