Vill stofna til formlegra viðræðna

Carles Puigdemont, leiðtogi Katalóníu, vill stofna til formlegra viðræðna við …
Carles Puigdemont, leiðtogi Katalóníu, vill stofna til formlegra viðræðna við spænsk yfirvöld um stöðu Katalóníu. AFP

Carles Puigdemont, leiðtogi Katalóníu, biðlar til forsætisráðherra Spánar að falla frá ákærum gegn lög­reglu­stjóra svæðis­lög­regl­unn­ar í Katalón­íu, Josep Llu­is Tra­pero, og tveimur forystumönnum sjálfstæðissinna. Þeir eru sakaðir um að dreifa upp­reisn­ar­áróðri gegn spænska rík­inu.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í bréfi sem Puigdemont skrifar til Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, í dag. Bréfið hefur einnig verið sent til fjölmiðla, þar á meðal til mbl.is.

Þar tekur Puigdemont einnig fram að sú staða sem nú sé komin upp í spænskum stjórnmálum geri það að verkum að einungis sé hægt að leysa málin með „pólitískum lausnum af hæstu gerð.“ Það hafi því komið honum á óvart þegar Rajoy ákvað að undirbúa formlega að hann kynni að nýta heim­ild í spænsku stjórn­ar­skránni til að aft­ur­kalla sjálf­stjórn­ar­rétt­indi héraðsins.

Rík­is­stjórn Spán­ar hef­ur veitt Puig­demont framlengdan frest, til klukk­an 10, á fimmtu­dags­morg­un til þess að gefa það ber­lega til kynna hvort héraðið muni lýsa yfir sjálf­stæði.

Puig­demont segist hins vegar í bréfi sínu að hann vilji stofna til formlegra viðræðna næstu tvo mánuði, þar sem vandlega verði farið yfir niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar og næstu skref verði tekin af skynsemi. Puig­demont leggur einnig til að spænsk og katalónsk fyrirtæki og stofnanir taki þátt í viðræðunum.

„Tillaga okkar um viðræður er sett fram af einlægni, þrátt fyrir allt sem á undan hefur gengið,“ segir Puig­demont og vísar þar til lögregluofbeldis og mótmæla sem hafa geisað frá því að þjóðaratkvæðagreiðslan um sjálfstæði Katalóníu fór fram 1. okóber.

Yfirvöld á Spáni hafa sakað Puig­demont um að vera óskýran í máli sínum og að honum hafi mistekist að útskýra hvort Katalónía muni lýsa yfir sjálfstæði eða ekki. 

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert