Þögnin ekki hluti af samningnum

Reese Witherspoon var aðeins 16 ára gömul þegar hún varð …
Reese Witherspoon var aðeins 16 ára gömul þegar hún varð fyrst fyrir kynferðislegri áreitni í starfi sínu sem leikkona. AFP

Leikkonan Reese Witherspoon hefur nú bæst í hóp þeirra kvenna sem hafa stigið fram og greint frá reynslu sinni af kynferðislegri áreitni og kynferðisofbeldi í kvikmyndaheiminum.

Reese tók til máls á viðburði á vegum Elle Women í Beverly Hills í gærkvöldi. „Þetta hefur verið erfið vika fyrir konur í Hollywood og fyrir konur um heim allan,“ sagði Reese og vísaði þar til allra kvenna sem hafa greint frá reynslu sinni undir myllumerkinu #metoo. Upphaf herferðarinnar má rekja til fjölda kvenna sem hafa stigið fram og sagt frá áreiti af hendi kvikmyndaframleiðandans  Harvey Weinstein. Nokkrar leikkonur hafa sakað hann um nauðgun.

„Ég er að endurupplifa mína eigin reynslu og á erfitt með að sofa, erfitt með að hugsa, erfitt með að tjá margar af þeim tilfinningum sem ég hef sem einkennast af kvíða, heiðarleika og samviskubit fyrir að hafa ekki sagt neitt fyrr,“ sagði Reese.

Varð fyrst fyrir áreitni 16 ára gömul

Hún greindi frá því að hún hafi aðeins verið 16 ára þegar hún varð fyrst fyrir kynferðislegri áreitni af hendi leikstjóra. „Ég fyllist viðbjóði gagnvart leikstjóranum sem áreitti mig og ég er reið umboðsmönnunum og framleiðendunum sem létu mér líða eins og þögnin væri hluti af ráðningarsamningi mínum,“ sagði Reese.

Reese Witherspoon hlaut Emmy-verðlaun fyrir sjónvarpsþáttaröðina Big Little Lies á …
Reese Witherspoon hlaut Emmy-verðlaun fyrir sjónvarpsþáttaröðina Big Little Lies á hátíðinni sem fram fór í síðasta mánuði. AFP

„Ég óska þess að ég gæti sagt ykkur að um stakt tilvik sé að ræða, en því miður er það ekki svo,“ sagði Reese jafnframt. Hún hefur upplifað margs konar áreitni í á ferli sínum en hefur ekki rætt hana opinberlega, þar til nú. „Eftir að hafa heyrt allar þessar sögur síðustu daga og heyrt frásagnir þessara hugrökku kvenna hér í kvöld af málum sem okkur er almennt sagt að sópa undir teppið og ekki ræða, þá finn ég mig knúna til að segja frá og tala hátt því þessa viku hefur mér liðið minna eins og ég sé ein heldur en allan minn feril.“

Reese hefur rætt við margar leikkonur og handritshöfunda sem hafa svipaða sögu og hún að segja og eru þær allar sammála um að sannleikurinn sé besta meðalið þegar kemur að því að vinna úr reynslu eftir kynferðislega áreitni. „Þú getur aðeins unnið úr þessari reynslu með því að segja sannleikann.“

Frétt People um frásögn Reese Witherspoon. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert