Trump birtir myndband af múrnum

Donald Trump Bandaríkjaforseti birti myndband af frumgerð múrsins á Twitter-síðu …
Donald Trump Bandaríkjaforseti birti myndband af frumgerð múrsins á Twitter-síðu sinni. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti birti í kvöld myndband á Twitter-síðu sinni sem hann segir vera af frumgerð múrsins sem rísa eigi á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.

Múrinn, sem var eitt af kosningaloforðum Trumps, hefur frá upphafi verið umdeildur, sem og hvernig fjármagna eigi hann. Trump hefur fullyrt að Mexíkó verði látið borga fyrir múrinn, en því hafa þarlend stjórnvöld alfarið hafnað.

Þá setti alríkisdómarinn Derrick Watson lögbann á á ferðabann Trumps nú í kvöld, en um er að ræða þriðju tilraun forsetans til að banna ferðalög ríkisborgara sjö múslimaríkja til Bandaríkanna.

BBC segir þetta í annað skipti sem Watson, sem er alríkisdómari á Hawaii, setur lögbann á ferðabann forsetans, en í úrskurði dómarans segir að forsetinn hafi ekki vald samkvæmt alríkislögum til að koma á slíku banni.

Ferðabannið átti að öðlast gildi á morgun og er harðasta útgáfa þess til þessa.  Fyrstu tvær útgáfurnar kváðu á um 90 daga bann, en í nýjustu útgáfunni var bannið ótímabundið.

Talið er líklegt að bandarísk stjórnvöld áfrýi ákvörðun Watson, sem sagði frumvarpið búa yfir nákvæmlega sömu göllum og fyrirrennarar þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert