Bróðir Weinstein sakaður um áreitni

Bræðurnir Bob og Harvey Weinstein.
Bræðurnir Bob og Harvey Weinstein. Ljósmynd/Wikipedia.org

Bob Weinstein, bróðir Harvey Weinstein, hefur verið sakaður um kynferðislega áreitni. Framleiðandinn Amanda Segel greinir frá því í viðtal við Variety að Bob hafi áreitt hana kynferðislega þegar þau störfuðu saman við framleiðslu á þáttaröðinni The Mist fyrir Spike TV.

Áreitnin hófst sumarið 2016 og stóð yfir í um þrjá mánuði. Þá ræddi Amanda við lögmann sinn sem tilkynnti stjórnendum The Weinstein Company, sem sá um framleiðslu þáttanna, að Amanda myndi segja starfi sínu lausu ef Bob myndi ekki breyta hegðun sinni. Bob hafði meðal annars reynt ítrekað við hana og boðið henni út að borða þar sem þau yrðu bara tvö ein.

Amanda segir að Bob hafi ekki hlustað á fyrirmæli lögmanns hennar. „Eftir að hafa fengið nei ættu þeir sem eru að reyna að bjóða manni út að láta sér það nægja. Bob sagði mér að hann vildi að við yrðum vinir. Hann vildi hins vegar ekki vinskap heldur vildi hann meira en það. Ég vona að framvegis muni nei duga.“

Eftir umfjöllun Variety um málið barst tímaritinu yfirlýsing frá talsmanni Bob þar sem kemur fram að hann hafni því alfarið að hafa hagað sér með óviðeigandi hætti.

Bob tók við stjórnartaumum The Weinstein Company eftir að Harvey, bróðir hans, sagði sig úr stjórninni í gær. Wein­stein á yfir höfði sér ásak­an­ir um að hafa áreitt og misþyrmt fjölda kvenna kyn­ferðis­lega yfir rúm­lega þrjá­tíu ára tíma­bil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert