Hjálparsveitir vilja með gögn til Raqqa

Hermenn SDF virða fyrir sér skemmdirnar við Al-Naim torgið í …
Hermenn SDF virða fyrir sér skemmdirnar við Al-Naim torgið í Raqqa. AFP

Sameinuðu þjóðirnar eru nú tilbúnar að fara með hjálpargögn inn í sýrlensku borgina Raqqa, en greint var frá því í gær að búið væri að ná borginni úr höndum hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams eftir þriggja ára ógnarstjórn samtakanna.

Starfsmaður Sameinuðu þjóðanna í Damaskus sagði í samtali við BBC að þó að öll áhersla væri nú lögð á að tryggja aðgengi að svæðinu, þá byggju um 300.000 manns í flóttamannabúðum utan borgarmarkanna við mikla neyð.

Starfsmenn hjálparsamstaka hafa sagt fleiri ár geta liðið áður en fólkið getur snúið aftur til síns heima.

Sýrlenskar hersveitir, með stuðningi Bandaríkjahers, greindu frá því í gær að þær væru búnar að ná borginni á sitt vald eft­ir fjög­urra mánaða langt áhlaup. Nú sé unnið að því að hreinsa borg­ina, m.a. með leit að jarðsprengj­um og kanna hvort ein­hverj­ar sell­ur Rík­is íslams leyn­ist enn í Raqqa, að því er Mustefa Bali talsmaður Sýrlensku lýðræðissveitanna (SDF) sagði.

Einn af hermönnum SDF gengur um götur Raqqa, sem hefur …
Einn af hermönnum SDF gengur um götur Raqqa, sem hefur orðið fyrir miklum skemmdum í áhlaupi undanfarinna mánaða. AFP

Raqqa hefur orðið fyrir mikilli eyðileggingu í áhlaupi undanfarinna mánaða og hafa innviðir borgarinnar og heimili íbúa orðið fyrir miklum skemmdum.

„Við erum nú í betri stöðu til að komast að fólki sem þarf á hjálp okkar að halda og við erum tilbúin að auka aðstoð okkar,“ sagði Linda Tom, starfsmaður Sameinuðu þjóðanna í Damaskus.

Muhannad Hadi, framkvæmdastjóri Miðausturlandadeildar mannúðarstofnunarinnar World Food Program, sagði  í samtali við AP-fréttastofuna að það breytti öllu fyrir hjálparstofnanir að Raqqa væri fallinn.

Samtökin  Save the Children vöruðu hins vegar nú í vikunni við yfirvofandi hremmingum  í norðausturhluta Sýrlands þar sem flóttamannabúðir væru orðnar yfirfullar.

„Flestar fjölskyldur hafa lítið sem ekkert til að snúa aftur til og munu að öllum líkindum vera fastar í flóttamannabúðunum mánuðum eða árum saman,“ sagði í yfirlýsingu frá samtökunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert