James Bond kom upp um njósnarann

Daniel M ásamt verjandi sínum, Hannes Linke, í Frankfurt í …
Daniel M ásamt verjandi sínum, Hannes Linke, í Frankfurt í morgun. AFP

Svissneskur njósnari var handtekinn vegna aðgerða James Bond Þýskalands. Þetta er ekki kvikmyndahandrit heldur dómsmál sem nú stendur yfir í Þýskalandi. Málið snýst meðal annars um stuld á upplýsingum um starfsmenn hjá þýska skattinum.

Réttarhöld yfir Svisslendingi sem er sakaður um að hafa njósnað um þýska embættismenn sem voru að eltast við skattsvikara hófust í Frankfurt í morgun.

t Daniel M með lögmenn beggja vegna við sig, Hannes …
t Daniel M með lögmenn beggja vegna við sig, Hannes Linke og Robert Kain. AFP

Svisslendingurinn Daniel M., 54 ára, var handtekinn í Frankfurt í apríl og sakaður um njósnir eftir að í ljós kom að hann hafði safnað saman upplýsingum um þýska embættismenn sem voru á höttunum eftir upplýsingum um Þjóðverja sem höfðu komið fjármunum fyrir á leynireikningum í Sviss.

Svissnesk yfirvöld höfðu verið að reyna að fá upplýsingar um þrjá þýska starfsmenn skattsins þar sem ætlunin var að lögsækja þá fyrir að afla með ólöglegum hætti upplýsingum sem bankaleynd hvílir á, samkvæmt svissneskum lögum.

Mikill þrýstingur hefur verið á svissneska banka undanfarin ár vegna skattaundanskota Þjóðverja. Þýsk yfirvöld hafa keypt bæði geisladiska og minnislykla með upplýsingum um þýska skattgreiðendur sem hafa falið auðævi sín hinum megin við landamærin í svissnesku skattaskjóli.

Margir auðugir og frægir Þjóðverjar stigu fram í kjölfarið þar sem þeir óttuðust saksókn og upplýstu um eignir sem þeir höfðu falið á bankareikningum í útlöndum. Þetta hefur haft afar jákvæð áhrif á hag þýska ríkisins því þetta hefur skilað milljörðum evra í tekjur fyrir ríkissjóð sem annars hefðu aldrei skilað sér. 

Moldvarpan ófundin

Þýska lögreglan segir að Daniel M. hafi starfað sem njósnari fyrir svissnesk yfirvöld frá því í júlí 2011. Auk þess að starfa fyrir öryggisfyrirtæki í Frankfurt er hann sakaður um að hafa safnað saman persónulegum upplýsingum um skattheimtumenn. Svo sem fæðingardögum þeirra, símanúmerum og heimilisföngum. Saksóknarar telja að hann hafi komið moldvörpu fyrir á skattstofunni en ekki hefur verið upplýst um hver hún er.

Allt bendir til þess að gengið verði frá samkomulagi milli ákæruvaldsins og sakbornings því verjandi hans sagði við upphaf réttarhaldanna í morgun að skjólstæðingur hans sé reiðubúinn til þess að játa brot sitt og gefa um það skriflega yfirlýsingu í næstu viku þegar aðalmeðferð á að hefjast. Aftur á móti neitar hann því að skjólstæðingur hans hafi komið moldvörpu fyrir hjá skattinum.

Saksóknari Lienhard Weiss.
Saksóknari Lienhard Weiss. AFP

Mikil reiði greip um sig meðal Þjóðverja þegar upp komst um njósnarann. Utanríkisráðherra Þýskalands, snupraði svissnesk yfirvöld vegna málsins og fékk á sinn fund sendinefnd frá yfirvöldum í Bern vegna málsins. Málið þykir hið vandræðalegasta fyrir Sviss því árið 2015 var skrifað undir samkomulag við Evrópusambandið um að skiptast á bankaupplýsingum frá og með 2018. Um aðgerð er að ræða sem vonast er til þess að draga úr skattsvikum íbúa ESB.

Gekk í gildru Werner Mauss - James Bond Þýskalands

Samkvæmt fréttum svissneskra fjölmiðla komst sennilega upp um málið þar sem njósnarinn Daniel gekk beint í gildru Werner Mauss sem á árum áður var helsti njósnari þýska ríkisins. Oft nefndur James Bond Þýskalands.

Daniel M., sem er fyrrverandi lögreglumaður og hátt settur í öryggiseftirlitsdeild UBS bankans, á að hafa afhent þýskum manni gögn á geisladiski með upplýsingum um bankareikninga. Þjóðverjinn reyndist hins vegar starfa fyrir Mauss.

Gögnin reyndust ekki í lagi en Mauss tilkynnti um þetta tilUBS sem kom þeim til svissneskra yfirvalda sem handtókuDaniel M í febrúar 2015 fyrir að brjóta bankaleynd.Daniel M á að hafa sagt svissnesku lögreglunni að hann starfaði sem njósnari hjá stjórnvöldum í Bern.

AFP

Afrit af yfirheyrslunni endaði hins vegar hjá þýsku lögreglunni í gegnum Mauss og leiddi að lokum til þess að Daniel M var handtekinn í Frankfurt í apríl á þessu ári.

Í ákærunni kemur fram að Daniel M hafi fengið greiddar þrjú þúsund evrur, 373 þúsund krónur, á mánuði í meira en hálft ár. Launagreiðandinn var svissneska ríkið. Hann fékk einnig greiddar 13 þúsund evrur, 1,6 milljónir króna, fyrir persónuupplýsingar um starfsmenn þýska skattsins en greiddi af því 10 þúsund evrur til aðstoðarmanns síns.

Síðan á moldvarpan að hafa fengið loforð um greiðslu upp á 90 þúsund evrur fyrir vel unnin störf. Daniel fékk 60 þúsund evrur greiddar en stærsti hluti fjárhæðarinnar rann til óþekkts einstaklings (moldvörpunnar). 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert