Leita byssumanns sem myrti 3 í Maryland

Byssumaðurinn er talinn vera Radee Labeeb Prince og virðist árásin …
Byssumaðurinn er talinn vera Radee Labeeb Prince og virðist árásin hafa beinst gegn starfsmönnum granítfyrirtækisins. AFP

Lögreglan í Marylandríki í Bandaríkjunum leitar nú byssumanns sem drap þrjá og særði tvo í iðnaðarhverfi Edgewood, norðaustur af Baltimore. Maðurinn flúði því næst af vettvangi og hefur nokkrum skólum í nágrenninu verið lokað á meðan hans er leitað. Það sama var raunar einnig gert á tökustað sjónvarpsþáttanna Spilaborg [e. House of Cards] sem eru teknir upp í nágrenninu.

Talið er að byssumaðurinn heiti Radee Prince og er hann talinn tengjast granítfyrirtæki í Edgewood þar sem skotárásin átti sér stað.

Árásin átti sér stað í iðnaðarhverfi í Edgewood, norðaustur af …
Árásin átti sér stað í iðnaðarhverfi í Edgewood, norðaustur af Baltimore. google

„Þetta virðist hafa verið skipulögð árás og hún virðist hafa beinst gegn þessu fyrirtæki,“ hefur AFP eftir Jeffrey Gahler, lögreglustjóra Harford sýslu. Hann staðfesti að þrír væru látnir og að tveir til viðbótar væru alvarlega slasaðir.

Er lögregla nú sögð vera að rannsaka tengsl Prince við fyrirtækið Advanced Granite Solution, en fórnarlömbin fimm störfuðu öll þar að sögn Gahlers.

Ekki er talið að neinir aðrir tengist árásinni, en yfirvöld segjast telja Prince vera bæði „vopnaðan og hættulegan“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert