Reyndu Bond-fléttu til að svíkja fé af Branson

Richard Branson sagði fjársvikin hljóma eins og þau ættu heima …
Richard Branson sagði fjársvikin hljóma eins og þau ættu heima í Bond-mynd, ekki raunveruleikanum. AFP

Richard Branson, stofnandi Virgin-flugfélagsins, hefur upplýst að hann hafi orði fyrir barðinu á svikahrappi sem gaf sig út fyrir að vera varnarmálaráðherra Bretlands og reyndi að fá hann til að leggja fram fimm milljónir dollara vegna leynilegrar greiðslu lausnargjalds.

Branson hefur nú biðlað til almennings um upplýsingar sem geti hjálpað til við að bera kennsl á svikahrappinn. Kveðst hann telja sama einstakling hafa svikið tvær milljónir dollara af vini sínum undir því yfirskini að verið væri að safna fé fyrir fórnarlömb fellibyljarins Irmu.

„Þessi saga hljómar eins og hún eigi heima í spennusögu eftir John le Carre eða í James Bond-mynd, en hún er því miður sönn,“ skrifaði Branson á bloggsíðu sinni.

Michael Fallon, varnarmálaráðherra Bretlands. Svikahrappurinn hringdi í Branson og þóttist …
Michael Fallon, varnarmálaráðherra Bretlands. Svikahrappurinn hringdi í Branson og þóttist vera ráðherrann. AFP

Yrði að bjarga diplómatanum svo lítið bæri á

Sagði Branson frá því að fyrir um hálfu ári, eftir vandlega undirbúin svik sem m.a. fólu í sér fölsun á bréfsefni breskra stjórnvalda, hefði hann talað í síma við mann sem kvaðst vera Michael Fallon, varnarmálaráðherra Bretlands.

Maðurinn sagði Branson að breskum diplómata hefði verið rænt af hryðjuverkamönnum sem hefðu krafist  lausnargjalds fyrir að láta hann lausan. Sagði hann að þó að bresk stjórnvöld greiddu ekki lausnargjald væru vissar ástæður fyrir því að það yrði að bjarga þessum einstaklingi og því vildi breska stjórnin kanna hvort samtök Bransons gætu gripið inn í svo lítið bæri á. „Ég var beðinn um að leggja fram 5 milljón dollara lausnarfé og hann fullyrti að bresk stjórnvöld myndu finna einhverja leið til að greiða mér féð til baka,“ skrifaði hann.

Grunsemdir gerðu þó vart við sig hjá Branson sem kannaði hjá breskum stjórnvöldum hvort Fallon hefði rætt við sig, svo reyndist ekki vera og málið var kært til lögreglu.

Fellibylurinn Irma olli miklu tjóni á eyjum Karíbahafs, m.a. á …
Fellibylurinn Irma olli miklu tjóni á eyjum Karíbahafs, m.a. á Bresku-Jómfrúareyjum, og nýtti svikahrappurinn sér þá staðreynd til að svíkja fé út úr vini Bransons. AFP

Hringdi í vin Bransons og þóttist vera hann

Hálfu ári síðar frétti Branson af vini, sem hann segir vera farsælan bandarískan kaupsýslumann. Þá hafði svikahrappur haft samband við vin hans og sagst vera Branson.

„Þegar hann hringdi í hann tókst svikahrappinum að líkja mjög vel eftir mér og spann upp lygasögu um að ég þyrfti nauðsynlega á láni að halda á meðan ég væri að reyna að koma hjálparstarfi í gang á Bresku-Jómfrúareyjum,“ rifjar Branson upp.

Branson á eyju í Breska-Jómfrúareyjaklasanum, en líkt og þekkt er eyðilagði fellibylurinn Irma húsnæði hans á eyjunni. Svikahrappurinn nýtti sér þessar fréttir.

„Hann fullyrti að ég gæti ekki náð sambandi við bankann minn í Bretlandi af því að ég næði ekki síma- eða netsambandi við Evrópu og að mér hefði rétt svo tekist að hringja í gegnum gervihnött til kaupsýslumannsins í Bandaríkjunum. Kaupsýslumaðurinn gaf síðan af mikilli gjafmildi tvær milljónir dollara sem hurfu samstundis.“

Þóst vera ráðherrann í tvígang

Talsmaður Fallon sagði varnarmálaráðherrann vita af tveimur svikatilraunum og að hin tilraunin hefði ekki tengst Branson, en að þar hefði einstaklingur einnig gefið sig út fyrir að vera ráðherrann og reynt að hagnast á.

Sagði hann starfsfólk ráðuneytisins vera að aðstoða lögreglu við að hafa uppi á svikahröppunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert