Tímabært að Kína fái aðalhlutverkið

Xi Jinping, forseti Kína, sparaði ekki stóru orðinn er hann lýsti framtíðarsýn sinni á kínverskt samfélag og hlutverk þess í alþjóðasamfélaginu á flokksþingi kínverska Kommúnistaflokksins sem hófst í morgun. Lagði Xi áherslu á að útrýma spillingu og hindra offramleiðslu, launamun og mengun.

Hét hann því þá að byggja upp „nútíma sósíalistaríki“ fyrir „nýja tíma“ sem verði kínverskir og stjórnað styrkri hendi af flokkinum, en sem verði jafnframt opnir umheiminum. Kína bíði „stórt hlutverk“ í mannkynssögunni.

Þó að Xi færi um víðan völl í þriggja og hálfstíma ræðu sinni kom þar skýrt fram að engar hugmyndir væru uppi um pólitískar umbætur.

„Eftir áratuga erfiðisvinnu þá eru nýir tímar í kínverskum sósíalisma,“ sagði Xi sem notaði frasann „nýja tíma“ 36 sinnum í ræðu sinni.

„Nú er komið að okkur að verða miðpunktur athyglinnar og leggja okkar að mörkum fyrir mannkynið.“

Fulltrúar kínverska hersins yfirgefa þingið að lokinni ræðu forsetans.
Fulltrúar kínverska hersins yfirgefa þingið að lokinni ræðu forsetans. AFP

Aukin miðstýring þvert á gefin loforð

Reuters segir líkt og búist hafi verið við þá hafi verið lítið um útlistun aðgerða en þeim mun meira um hástemmd loforð í ræðu Xi.

Flokksþingið er haldið á fimm ára fresti og fer að mestu fram fyrir luktum dyrum, en einn af hápunktum þess verður kosning 2.287 full­trú­a á þing­inu á 205 manna miðstjórn, sem vel­ur síðan 25 menn í stjórn­málaráð flokks­ins og sjö manna fasta­nefnd þess. Þess­ir sjö menn verða þeir valda­mestu í Kína næstu fimm árin og gert er ráð fyr­ir því að þeir verði kynnt­ir á flokksþing­inu.

Sum­ir stjórn­mála­skýrend­ur spá því að Xi noti flokksþingið til að styrkja stöðu sína nógu mikið til að hann geti haldið völd­un­um eft­ir að öðru kjör­tíma­bili hans lýk­ur árið 2022. Xi er af mörgum talinn valdamesti leiðtogi Kína frá því Mao Zedong var og hét.

Þegar Xi komst til valda fyr­ir fimm árum hét hann því að koma á markaðsum­bót­um og auka svig­rúm einka­fyr­ir­tækja í Kína. Hann íhugaði jafn­vel að leysa upp stofn­un sem hef­ur um­sjón og eft­ir­lit með stærstu rík­is­fyr­ir­tækj­um lands­ins, skip­ar til að mynda for­stjóra þeirra.

Þró­un­in hef­ur hins veg­ar verið þver­öfug í Kína síðustu árin. Miðstýr­ing­in hef­ur verið auk­in í efna­hagn­um, þrengt hef­ur verið að einka­fyr­ir­tækj­um, stóru rík­is­fyr­ir­tæk­in hafa stækkað og stjórn­in hef­ur aukið völd stofn­un­ar­inn­ar sem Xi íhugaði að leggja niður. Á sama tíma hafa skuld­ir rík­is­ins auk­ist veru­lega og hag­vöxt­ur minnkað.

Þá er ritskoðun nú beitt í auknum mæli og handtökum lögfræðinga og mannréttindasinna hefur sömuleiðis fjölgað.  

Starsmenn dreifa regnhlífum til þátttakenda á flokksþinginu sem haldið er …
Starsmenn dreifa regnhlífum til þátttakenda á flokksþinginu sem haldið er í Peking. AFP

Flokkurinn unnið kraftaverk

Xi er mun ákveðnari leiðtogi en forverar hans og í ræðu sinni horfði hann yfir fimm ára forsetatíð sína og sagði flokkinn hafa unnið kraftaverk og að staða Kína í alþjóðasamfélaginu hafi styrkst.

Hann sagði ennfremur Kína ekki  hafa hug á að herma eftir stjórnkerfum annarra ríkja og að Kommúnistaflokkurinn muni berjast gegn öllu sem grafi undan stjórn hans. Í því skyni verði flokksagi aukinn, sagði Xi og minnti á herferð sína gegn spillingu sem hefur náð til milljóna kínverskra ríkisstarfsmanna.

Xi Jinping kom víða við í þriggja og hálftíma langri …
Xi Jinping kom víða við í þriggja og hálftíma langri ræðu sinni. Þar kom þó skýrt fram að engar pólitískar umbætur væru í farvatninu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert