Völd Xi aukast enn

Xi Jinping flytur opnunarávarp á flokksþinginu í morgun.
Xi Jinping flytur opnunarávarp á flokksþinginu í morgun. AFP

Flokksþing kínverska Kommúnistaflokksins hófst í morgun og er talið að völd Xi Jinping, forseta Kína, sem er álitinn valdamesti leiðtogi landsins frá því að Maó formaður og síðar Deng Xiaoping sátu við stjórnartaumana, aukist enn frekar á þinginu.

Sumir stjórnmálaskýrendur spá því að hann noti flokksþingið til að styrkja stöðu sína nógu mikið til að hann geti haldið völdunum eftir að öðru kjörtímabili hans lýkur árið 2022.

Slík flokksþing eru haldin á fimm ára fresti í Kína. 2.287 fulltrúar á þinginu eiga að kjósa 205 manna miðstjórn, sem velur síðan 25 menn í stjórnmálaráð flokksins og sjö manna fastanefnd þess. Þessir sjö menn verða þeir valdamestu í Kína næstu fimm árin og gert er ráð fyrir því að þeir verði kynntir á flokksþinginu.

Frá árinu 2002 hefur verið venja að miðstjórnin skipti út þeim mönnum í fastanefndinni sem eru 68 ára eða eldri þegar flokksþingið er haldið. Þetta er óskrifuð regla sem Jiang Zemin, þáverandi forseti, kom á til að losna við aldraðan keppinaut úr fastanefndinni.

Brugðið út af venjunni?

Verði þessi venja virt halda aðeins Xi forseti (sem er 64 ára) og Li Keqiang forsætisráðherra (62 ára) sætum sínum í fastanefndinni og fimm verður skipt út. Talið er hins vegar að brugðið verði út af venjunni og að Wang Qishan verði endurkjörinn í fastanefndina þótt hann sé orðinn 69 ára. Wang er náinn bandamaður forsetans, fer með rannsókn spillingarmála og hefur nýtt þá stöðu til þess að víkja keppinautum hans frá.

Verði Wang endurkjörinn í fastanefndina gefur það fordæmi fyrir því að forsetinn haldi sæti sínu í nefndinni eftir fimm ár þegar hann verður orðinn 69 ára.

AFP

Samkvæmt stjórnarskrá Kína getur enginn gegnt embættum forseta landsins og forsætisráðherra lengur en í tvö fimm ára kjörtímabil. Hins vegar eru engar reglur um hversu lengi menn geta gegnt embættum í flokknum þar sem völdin liggja í raun, t.a.m. embætti aðalritara og formennsku í valdamiklum nefndum. Sumir stjórnmálaskýrendur spá því að Xi muni reyna að halda völdunum með einhverjum hætti eftir árið 2022.

Auk þess að vera forseti Kína hefur Xi gegnt embætti aðalritara í flokknum og formennsku í nefnd sem stjórnar hernum. Hann hefur reyndar fengið svo marga titla að hann hefur verið kallaður „formaður alls“ í Kína. Forsetinn hefur verið hafinn til skýjanna í fjölmiðlum og lögreglan hefur handtekið menn sem hafa gagnrýnt stefnu hans.

Þegar Xi komst til valda fyrir fimm árum hét hann því að koma á markaðsumbótum og auka svigrúm einkafyrirtækja í Kína. Hann íhugaði jafnvel að leysa upp stofnun sem hefur umsjón og eftirlit með stærstu ríkisfyrirtækjum landsins, skipar til að mynda forstjóra þeirra.

Þróunin hefur hins vegar verið þveröfug í Kína síðustu árin. Miðstýringin hefur verið aukin í efnahagnum, þrengt hefur verið að einkafyrirtækjum, stóru ríkisfyrirtækin hafa stækkað og stjórnin hefur aukið völd stofnunarinnar sem Xi íhugaði að leggja niður. Á sama tíma hafa skuldir ríkisins aukist verulega og hagvöxtur minnkað.

Alræðið hefur forgang

Nokkrir stjórnmálaskýrendur telja að Xi forseti muni nota aukin völd sín eftir flokksþingið til að koma á efnahagsumbótum næstu fimm árin. Sterkari staða hans geri honum kleift að taka erfiðar ákvarðanir sem séu nauðsynlegar til að draga úr skuldasöfnuninni, sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir að sé komin „á hættulega braut“.

Aðrir stjórnmálaskýrendur telja hins vegar litlar líkur á að Xi og kínverska ríkisstjórnin breyti stefnu sinni. „Menn hafa almennt orðið fyrir vonbrigðum með framgöngu stjórnvalda og þróunina í efnahagsmálum,“ hefur fréttaveitan AFP eftir Christopher Balding, hagfræðiprófessor við Peking-háskóla. „Miðstýringin hefur aukist verulega síðustu fimm árin.“

AFP

Hagfræðingar segja að aukin miðstýring hafi m.a. orðið til þess að lánsfé hafi verið dælt í ríkisfyrirtæki sem skili minni framleiðni en einkafyrirtæki.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert