Wallström varð fyrir áreitni

Margot Wallström flytur ræðu hjá Sameinuðu þjóðunum.
Margot Wallström flytur ræðu hjá Sameinuðu þjóðunum. AFP

Margot Wallström, utanríkisráðherra Svíþjóðar, segist hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni „á hæsta stigi stjórnmálanna“.

Þessu greindi hún frá á Facebook er hún gekk til liðs við herferðina #MeeToo.

„Ég get staðfest að þetta gerist á hæsta stigi stjórnmálanna og að ég hef sjálf lent í þessu,“ sagði Wallström við TT-fréttastofuna í Svíþjóð.

Hún kvaðst ekki vilja tala um atvikið „á of persónulegan máta“ og vildi heldur ekki staðfesta að það hafi gerst á fundi með embættismönnum Evrópusambandsins.

„Við þurfum að hugsa um lögin okkar. Hvernig við getum breytt viðhorfi fólks og hvernig við getum notað kunnáttu okkar til að binda enda á kynferðislega áreitni,“ sagði hún.

Wallström hefur verið utanríkisráðherra frá árinu 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert