Ardern orðin forsætisráðherra

Jacinda Ardern gengur á fund blaðamanna með Kelvin Davis á …
Jacinda Ardern gengur á fund blaðamanna með Kelvin Davis á hægri hönd og Craig Robertson til vinstri. AFP

Jacinda Ardern, formaður Jafnaðarmannaflokksins í Nýja-Sjálandi, verður forsætisráðherra landsins. Hún verður jafnframt yngsti einstaklingurinn til að gegna embættinu frá árinu 1856. Hún er 37 ára gömul. BBC greinir frá.  

Ríkisstjórnina skipa Jafnaðarmannaflokkurinn og Miðju­flokk­ur­inn Nýja-Sjá­land fyrst. Jafnaðar­menn eru næst­stærst­ir á þingi með 45 sæti eftir þingkosningarnar í september og fengu 13 fleiri þingmenn en þegar kosið var fyr­ir þrem­ur árum. Miðjuflokkurinn fékk nær 11% at­kvæða og 9 menn kjörna. Flokkur Græningja mun einnig styðja ríkisstjórnina. 

Stjórnmálaskýrendur segja að helsta áskorun hennar verði að sannfæra Nýsjálendinga sem ekki kusu hana að hún sé fullfær um að stýra landinu þrátt fyrir að flokkur hennar hafi verið sá stærsti í kosningunum.  

Ardern var skipaður formaður flokksins í ágúst og hefur því gegnt formennsku í tæpa þrjá mánuði. Fyrrverandi formaður flokksins Andrew Little sagði af sér í kjöl­far slæms geng­is Jafnaðarmanna í skoðakönn­un­um. 

For­manns­skipt­in hafa held­ur bet­ur skilað til­ætluðum ár­angri. Ný­sjá­lensk­ir miðlar ganga svo langt að kalla áhrif­in af per­sónu­fylgi henn­ar Jackinda­mania eða Jackindu-brjálæðið. 

Í kosningabaráttunni var hún ítrekað spurð út í barneignir og meðal annars hvort barn myndi hafa áhrif á mögu­leika henn­ar á að gegna starfi for­sæt­is­ráðherra og fleiri spurningar í þeim dúr. Hún svaraði spurningunum á þann hátt að það væri: „Al­gjör­lega óá­sætt­an­legt að árið 2017 þurfi kon­ur að svara spurn­ing­um sem þess­um á starfs­vett­vangi sín­um.“ 

Ardern hef­ur lýst sjálfri sér sem hefðbundn­um jafnaðar­manni og femín­ista, auk þess sem hún vill setja á stofn lýðveldi með for­seta í stað Breta­drottn­ing­ar. Þá hef­ur hún talað fyr­ir frjáls­lynd­ari lög­gjöf um fóst­ur­eyðing­ar.

Jacinda Ardern forsætisráðherra Nýja-Sjálands.
Jacinda Ardern forsætisráðherra Nýja-Sjálands. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert