Sjö þúsund ungbörn deyja daglega

Fyrirburi í Bangladess í faðmi hjúkrunarfræðings.
Fyrirburi í Bangladess í faðmi hjúkrunarfræðings. Ljósmynd/UNICEF

Þrátt fyrir að mikill árangur hafi náðst í að draga úr barnadauða á heimsvísu síðustu áratugi þá dóu 15 þúsund börn undir fimm ára aldri á hverjum einasta degi á síðasta ári. Tæpur helmingur þeirra, 7 þúsund börn, dóu á fyrstu 28 dögum lífs síns.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu frá UNICEF, Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, Alþjóðabankanum og mannfjöldadeilar Efnahags- og félagsmálaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna. Skýrslan ber heitið Levels and Trends in Child Mortality 2017 og er kynnt alþjóðlega í dag.

Í skýrslunni kemur fram að þrátt fyrir að dregið hafi verulega úr dánartíðni barna undir fimm ára aldri á heimsvísu, úr 9,9 milljónum dauðsfalla árið 2000 í 5,6 milljónir á síðasta ári, sé áhyggjuefni að börnum sem deyja innan 28 daga frá fæðingu hafi fjölgað hutfallslega á sama tímabili, að því er fram kemur í tilkynningu frá UNICEF.

Ungur drengur vigtaður.
Ungur drengur vigtaður. Ljósmynd/UNICEF

„Lífum 50 milljón barna undir fimm ára aldri hefur verið bjargað frá árinu 2000, sem er vitnisburður um áræðni yfirvalda og hjálparsamtaka við að sporna við dauðsföllum barna sem verða af viðráðanlegum orsökum,“ segir Steinunn Jakobsdóttir, upplýsingafulltrúi UNICEF á Íslandi, í tilkynningunni.

„En ef við gerum ekki meira til að koma í veg fyrir að börn láti lífið daginn sem þau fæðast, eða dagana eftir að þau fæðast, er árangurinn einfaldlega ekki fullnægjandi. Við höfum þekkinguna og tæknina sem þarf til – við þurfum hins vegar að flytja hana þangað sem þörfin er mest,“ segir ennfremur.

Ef áfram heldur sem horfir munu 60 milljónir barna deyja fyrir fimm ára afmælið sitt frá árunum 2017 til 2030, þar af helmingur þeirra nýburar.

Mikilvægt að ná til berskjölduðustu fjölskyldnanna

Flest dauðsföll ungbarna árið 2016 urðu í Suður-Asíu (39 prósent) og í Afríku sunnan Sahara (38 prósent). Þá varð helmingur allra ungbarnadauða í fimm löndum: Indlandi (24 prósent), Pakistan (10 prósent), Nígeríu (9 prósent), Lýðveldinu Kongó (4 prósent) og Eþíópíu (3 prósent).

„Við verðum að ná til berskjölduðustu fjölskyldnanna til að tryggja að fleiri ungabörn lifi af og dafni,“ segir Dr. Flavia Bustreo, aðstoðarframkvæmdastjóri á sviði Fjölskyldu-, kvenna- og barnaheilsu hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni.

„Til að sporna við sjúkdómum er mikilvægt að fjölskyldur hafi fjárhagslegan mátt, að raddir þeirra heyrist og að þær hafi aðgang að gæða heilbrigðisþjónustu. Við þurfum að forgangsraða í þágu þess að bæta gæði þjónustu sem er veitt á meðgöngu og við barnsburð.“

Nýburi sefur vært á heilsugæslustöð í Úganda.
Nýburi sefur vært á heilsugæslustöð í Úganda. Ljósmynd/UNICEF

Í skýrslunni kemur fram að hægt væri að bjarga mörgum barnslífum með því að draga úr ójöfnuði. Ef barnadauði hefði alls staðar verið jafn meðaltali efnameiri ríkja árið 2016 hefði lífum fimm milljón barna verið hlíft.

„Það er óásættanlegt að árið 2017 sé ennþá lífshættulegt fyrir konur að ganga með og fæða börn, og að 7 þúsund ungabörn deyi á hverjum degi,“ segir Tim Evans, forstjóri Heilsu-, næringar- og mannfjöldasviðs Alþjóðabankans.

„Besti mælikvarðinn á árangur alþjóða heilbrigðisþjónustu er að fjölskyldur hafi ekki einungis aðgang að heilbrigðisþjónustu, heldur geti nálgast gæða þjónustu á viðráðanlegu verði. Við höfum skuldbundið okkur til að auka fjárhagsaðstoð við lönd sem þurfa aðstoð á þessu sviði,“ að því er segir í tilkynningunni. 

Ódýrt og auðvelt að koma í veg fyrir barnadauða

Lungnabólga og niðurgangspestir eru algengustu sjúkdómar sem valda dauða barna undir fimm ára aldri á heimsvísu, en lungnabólga olli sextán prósent dauðsfalla árið 2016 og niðurgangspestir átta prósent. Fæðing fyrir tímann og vandamál í fæðingu ollu þriðjungi ungbarnadauða.

Bæta þarf aðgengi að færu heilbrigðisstarfsfólki á meðgöngu og við fæðingu, bólusetningum, aðstoð við brjóstagjöf, ódýrum lyfjum, vatni, hreinlæti og öðrum nauðsynjum sem eru utan seilingar fyrir þá sem eru verst settir.

„Skýrslan undirstrikar þann góða árangur sem hefur náðst við að draga úr dánartíðni barna undir fimm ára aldri frá 2000,“ segir Steinunn Jakobsdóttir.

„Þrátt fyrir árangurinn er tíðni barnadauða þó ennþá há á vissum svæðum. Í flestum tilfellum er auðveldlega hægt að koma í veg fyrir dauðsföll á ódýran hátt með bættu aðgengi að heilbrigðisþjónustu fyrir, við og eftir fæðingu. Nauðsynlegt er að draga úr ójöfnuði og ná til þeirra barna og mæðra sem eru hvað berskjölduðust.”

 Hægt er að nálgast skýrsluna sem pdf og skoða niðurstöður hennar á gagnvirkri vefsíðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert