Skaut samnemendur með lögreglubyssu

Drengurinn virðist hafa komist yfir vopn föður síns.
Drengurinn virðist hafa komist yfir vopn föður síns. KEVORK DJANSEZIAN

14 ára gamall nemandi í einkaskóla í borginni Goiana í Brasilíu skaut tvo samnemendur sína, 12 og 13 ára, til bana og særði fjögur önnur börn á föstudag. AFP-fréttastofan greinir frá. Lögreglumaður í borginni sagði í samtali við brasilísku sjónvarpstöðina Globo að drengurinn væri sonur lögreglumanns og að byssan sem hann notaði hafi verið vopn í eigu lögreglunnar.

Greint hefur verið frá því að drengurinn hafi orðið fyrir einelti í skólanum. Í frímínútum í dag tók hann skyndilega upp byssu og hóf að skjóta á samnemendur sína sem í ofboði reyndu að forða sér undan skothríðinni.

Skotárásin hefur vakið mikinn óhug í Brasilíu því árásir sem þessar, þar sem ungir nemendur skjóta samnemendur sína, eins og eru vel þekktar í Bandaríkjunum, eru afar fátíðar í landinu.

Brasilía er hins vegar það land í heiminum sem ofbeldisglæpir eru hvað tíðastir og um 60 þúsund morð eru framin í landinu ár hvert. Börn eru í mörg fórnarlambanna þar sem þau verða verða fyrir byssukúlum á þröngum götum fátækrahverfa. Það sem þykir sérstakt í þessu máli er hins vegar hve auðveldlega drengurinn virðist hafa komist yfir lögregluvopn föður síns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert