Töframaður sakaður um nauðgun

Blaine þvertekur fyrir að hafa nauðgað Prince.
Blaine þvertekur fyrir að hafa nauðgað Prince. Mynd/Skjáskot af heimasíðu Blaine

Bandaríski töframaðurinn David Blaine er nú til rannsóknar hjá kynferðisbrotadeild lögreglunnar í London vegna nauðgunarkæru sem lögð hefur verið fram á hendur honum.

Natasha Prince, fyrrverandi fyrirsæta og núverandi listaverkasali í New York, segir að Blaine hafi nauðgað sér á heimili hennar í Chelsea í London árið 2004. Þá var hún 21 árs. Kæran var lögð fram í nóvember 2016.

Breska lögreglan hefur óskað eftir því við Blaine að hann komi til Bretlands og ræði við lögregu vegna málsins, samkvæmt tölvupósti sem BBC hefur undir höndum. Í sama tölvupósti kemur fram að lögreglan sé að rannsaka gamalt nauðgunarmál þar sem bresk kona ásakar hann um nauðgun.

Lögmaður Blaine segir hann neita ásökunum og að hann muni að sjálfsögðu veita lögreglu fullt samstarf og veita þær upplýsingar sem hann getur.

Prince hefur afsalað sér rétti sínum til nafnleyndar á grundvelli þess að um kynferðisbrot er að ræða, til að stíga fram og staðfesta að kæran hafi verið lögð fram.

Í viðtali við bandarísku vefsíðuna Daily Beast sagðist hún hafa reynt að gleyma atvikinu, en hún hafi þurft að berjast við hræðilegar tilfinningar allar götur síðan.

Lögmaður Blaine svaraði fyrir ásakanirnar á sömu vefsíðu og sagði skjólstæðing sinn aldrei hafa nauðgað eða kynferðislega áreitt konu. Hann tók sérstaklega fram að hann hafi ekki nauðgað konu árið 2004. Lögmaðurinn sagði jafnframt að Blaine hefði ekkert að fela og myndi því aðstoða lögreglu vegna málsins.

Kynferðisbrotadeild lögreglunnar í London staðfestir við BBC að rannsókn standi yfir á meintri nauðgun sem átti sér stað í Chelsea í júní árið 2004, þar sem fórnarlambið var 21 árs. Lögreglan segir engan hafa verið handtekinn vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert