Hafnar valdaráni í Katalóníu

Sjálfstæðissinnar fylktu liði í miðborg Katalóníu í gær.
Sjálfstæðissinnar fylktu liði í miðborg Katalóníu í gær. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Alfonso Dastis, utanríkisráðherra Spánar, hafnar því að spænsk stjórnvöld stundi valdarán í Katalóníu. Ríkisstjórn Spánar hefur hafið vinnu við að svipta Katalóníu heimastjórn, en stjórnarskrá Spánar veitir henni heimild til þess. Sú ákvörðun hefur ekki lagst vel í sjálfstæðissinna og hefur Carme Forcadell, forseti katalónska héraðsþingsins, sakað spænsk stjórnvöld um valdarán.

„Ef einhver hefur reynt valdarán þá er það katalónska heimastjórnin,“ segir Alfonso í viðtali við BBC. „Ef þú lítur á önnur lýðræðisríki, einkum félaga okkar í Evrópusambandinu, þá myndu þau aldrei samþykkja slíka ákvörðun [þ.e. sjálfstæðisyfirlýsingu héraðs], sem tekin er af hluta landsmanna.“

Fregnir herma að spænska landstjórnin hyggist einnig taka völdin yfir katalónsku lögreglunni, en hún neitaði að fara að fyrirmælum spænskra stjórnvalda og gera kjörkassa upptæka á kjördag. Þurfti því að kalla til lögreglu frá öðrum svæðum ríkisins, sem þótti harðhent um of. Ríkisstjórnin hefur síðar beðið þá sem slösuðust afsökunar. 

Alfonso Dastis, utanríkisráðherra Spánar.
Alfonso Dastis, utanríkisráðherra Spánar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert